Ræstingarfyrirtækið Sólar ehf. hagnaðist um 118 milljónir króna á síðasta ári samanborið við 94 milljóna króna hagnað árið 2020. Rekstrartekjur námu tæplega 2,7 milljörðum í fyrra en 2,4 milljörðum árið á undan.
Eigið fé félagsins um síðustu áramót var 336 milljónir en 237 ári áður. Skuldir jukust úr 325 milljónum í 556 á milli ára og eignir úr 560 milljónum í 890. Stjórn félagsins leggur til að greiddur verði út 22 milljóna króna arður vegna síðasta rekstrarárs.
Flytur í Hafnarfjörðinn
Sólar hefur flutt höfuðstöðvar sínar í gömlu póstdreifingarmiðstöðina að Dalshrauni 6 í Hafnarfirði. Hjá fyrirtækinu, sem er það annað stærsta sinnar tegundar á landinu, starfa um 400 manns.
Í fréttatilkynningu segir Þórsteinn Ágústsson, framkvæmdastjóri Sólar, að ráðist hafi verið í miklar endurbætur á húsnæðinu til að aðlaga það sem best að starfsemi fyrirtækisins.
„Húsnæðið er sérhannað fyrir reksturinn eftir að ráðist var í mikla greiningarvinnu á þörfum hverrar deildar fyrir sig. Skrifstofuaðstaðan er mun betri en við höfum áður kynnst og var lögð mikil áhersla á funda- og næðisrýmin, sem eru alls níu talsins,“ segir Þórsteinn.
© Aðsend mynd (AÐSEND)