Ríkisstjórn Suður-Kóreu hefur ákveðið að setja þriggja mánaða bann á skortsölu skráðra hlutabréfa eftir að mikið fall helstu viðmiðunarhlutabréfavísitölu landsins. Vísitalan lækkaði samfellt í sex daga og hefur ekki fallið jafnmikið í þrjú ár. Lækkunin er rakin til ótta við útbreiðslu skuldavandamála Evrópu og Bandaríkjanna. Með skortsölu hlutabréfa er átt við að hlutabréf eru fengin að láni og síðan eru þau seld með því augnamiði að kaupa þau aftur á lægra verði.

Bannið hefst á morgun og mun standa til 9.nóvember. Skortsala hefur aukist í Suður-Kóreu þar sem fjármagn streymir af hlutabréfamarkaði og veldur það óróa á mörkuðum. Markið með banninu er að koma ró á markaðinn samkvæmt Kim Seok Dong, forstjóra FSC.

Þetta er ekki fyrsta skipti sem skortsala er bönnuð í Suður-Kóreu. Í september 2008 var tímabundið bann við skortsölu þar í landi og var því aflétt í júní 2009.