Framtíðaráform Landsvirkjunar um virkjanir og raforkusölu gera ráð fyrir tvöföldun umsvifa á næstu tíu til fimmtán árum. Fram til loka árs 2020 er gert ráð fyrir að Landsvirkjun standi fyrir framkvæmdum sem kosta munu rúmlega þrjá milljarða dollara, eða um 360 milljarða króna. Þetta var meðal þess sem fjallað var um á fundi Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, og Magnúsar Bjarnasonar, framkvæmdastjóra markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs, í Háskóla Íslands..

Raforkuvinnslan er í dag 17 twst á ári en Hörður sagðist telja að hægt væri að ná sátt um virkjun 30 til 35 twst á ári. Fram til ársins 2025 gæti fjárfesting Landsvirkjunar í virkjunum numið 4,5 til 5 milljörðum dollara, eða sem nemur allt að 600 milljörðum króna. Uppsöfnuð hagvaxtaráhrif gætu verið um 11% og um átta til tíu þúsund störf gætu skapast.

Hörður hefur sagt að þessi framtíðaráform séu vel raunhæf. Þau er þó háð því að rammaáætlun taki tillit til virkjunarkosta. Einkum og sér í lagi er horft til þess að orkuverð í heiminum fari hækkandi og að Landsvirkjun takist að hækka söluverð á raforku í takt við þróun á mörkuðum.