Eignarhaldsfélagið Green Highlander, sem rekur lúxushótelið Deplar Farms í Fljótum í Skagafirði, hefur aukið hlutafé sitt um 2,75 milljarða króna. Hlutafjáraukningin var tilkynnt til Fyrirtækjaskrár í nóvemberlok fyrr í vetur.

Um er að ræða annars vegar skuldajöfnun við félagið Blue Elver, eina hluthafa Highlander, að andvirði ríflega 1,8 milljarða og hins vegar framlagningu skuldabréfs að andvirði 900 milljóna. Útgefandi skuldabréfsins er Fljótabakki ehf. en Blue Elver er jafnframt eini eigandi þess félags.

Deplar Farms hefur notið vinsælda meðal auðugra ferðamanna allt frá opnun hótelsins. En líkt og önnur hótel og gististaðir hefur kórónuveiran sett mark sitt á reksturinn á undanförnum árum og var hótelinu lokað um tíma og starfsmönnum sagt upp. Tapið á rekstri Green Highlander árið 2020 nam tæplega 450 milljónum. Dróst það lítillega saman frá fyrra ári er tapið nam 487 milljónum króna.

Rekstrartekjur félagsins námu 333 milljónum króna og drógust allverulega saman frá fyrra ári er þær námu 808 milljónum króna. Eignir félagsins námu 350 milljónum króna í lok árs 2020, skuldir námu 2,4 milljörðum króna, þar af 1,7 milljarðar til tengdra aðila, og eigið fé var neikvætt um ríflega 2 milljarða króna.