*

þriðjudagur, 26. október 2021
Innlent 29. febrúar 2020 19:01

Þriggja milljarða hlutur týndist

Benchmark Holdings hefur týnt nær öllum hlutabréfum sínum í Stofnfiski. Breska félagið þarf þó ekki að örvænta.

Sveinn Ólafur Melsted
Ein af eldisstöðvum Stofnfisks er í Vogum á Reykjanesi.

Aðaleigandi laxahrogna- og seiðaframleiðandans Stofnfisks, breska fjölþjóðafyrirtækið Benchmark Holdings, hefur glatað meirihluta hlutabréfa sinna í Stofnfiski. Í tilkynningu sem birtist í Lögbirtingarblaðinu vegna málsins, segir að öll hlutabréf þess í félaginu séu glötuð, að undanskildum hlutabréfum að nafnvirði tæplega 8 milljóna króna. Nafnvirði glötuðu bréfanna nemi samtals rúmlega 120 milljónum króna, en samkvæmt ársreikningi Stofnfisks fyrir reikningsárið 2019, sem lauk í lok september, nemur heildarhlutafé Benchmark Holdings rúmlega 128 milljónum króna og á félagið tæplega 90% hlut í Stofnfiski.

Miðað við þetta hefur Benchmark Holdings því glatað um 94% af hlutabréfum sínum í Stofnfiski og 84% af heildarhlutabréfum félagsins. Heildar eigið fé félagsins nam um 4 milljörðum króna í lok síðasta reikningsárs og er verðmæti glötuðu bréfanna því að minnsta kosti 3,4 milljarða virði, að því gefnu að eigið fé félagsins sé að minnsta kosti metið yfir bókfærðu virði þess.

Ný bréf gefin út til eiganda

Þess ber þó að geta að það er ekki þar með sagt að breska félagið muni koma til með að glata meginþorra af eignarhlut sínum í Stofnfiski. Að því gefnu að enginn sem kunni að hafa bréfin undir höndum eða telji til réttar yfir því, gefi sig fram við skrifstofu Stofnfisks innan þriggja mánaða frá birtingu tilkynningarinnar í Lögbirtingarblaðinu, munu öll réttindi samkvæmt glötuðu bréfunum falla niður og ný bréf gefin út til handa skráðum eiganda - sem er Benchmark Holdings.

Benchmark Holdings er líkt og áður segir langstærsti hluthafi Stofnfisks með tæplega 90% hlut í sinni eigu en félagið eignaðist meirihluta í Stofnfiski árið 2014. Breska félagið er skráð á svokallaðan AIM markað kauphallarinnar í London, en þeim markaði svipar til First North markaðarins í kauphöll Nasdaq hér á landi.

Mikill vöxtur Stofnfisks

Stofnfiskur hefur vaxið hratt á undanförnum árum. Félagið velti 3,4 milljörðum króna á síðasta rekstrarári og 3 milljörðum rekstrarárið á undan en þá ríflega tvöfaldaðist veltan frá fyrra rekstrarári. Hagnaður síðasta reikningsárs nam tæplega 1,2 milljörðum króna og jókst um tæplega 63% frá fyrra ári. Hagnaður rekstrarársins 2017 nam 500 milljónum króna og hefur hagnaðurinn því ríflega tvöfaldast á tveimur árum. Jónas Jónasson, framkvæmdastjóri Stofnfisks, sagði frá því í samtali við Viðskiptablaðið síðasta sumar að um 80% af tekjum félagsins kæmu erlendis frá.

Þá jukust bókfærðar eignir félagsins um milljarð og námu 5,7 milljörðum króna í lok reikningsársins. Skuldir námu rúmlega 1,7 milljörðum króna og lækkuðu um tæplega 180 milljónir frá árinu á undan. Líkt og fyrr segir nam eigið fé 4 milljörðum króna og jókst það um tæplega 1,2 milljarða frá fyrra ári.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér