Fiskistofa sendir út þriggja milljarða króna reikning til íslenskra útgerða á mánudaginn. Þetta kemur fram í máli Eyþórs Björnssonar, fiskistofustjóra í Morgunblaðinu í dag. Hann segir nú sjá fyrir endann á þeirri auknu vinnu sem hefur orðið vegna sérstaks veiðigjalds sem ákveðið var að leggja á útgerðir hér á landi.

Sérstakt veiðigjald er nú lagt á í fyrsta skipti. Heildargreiðslur í veiðigjöld vegna aflamarks sem úthlutað hefur verið á fiskveiðiárinu, sem hófst 1. september, nema tæplega 10,5 milljörðum króna. Í sérstaka veiðigjaldið, sem samþykkt var að leggja á með lögum frá Alþingi síðastliðið vor, á að greiða 7.323 milljónir og 3.159 milljónir í almenna veiðigjaldið.

Aflamarki hefur ekki verið úthlutað í verðmætum uppsjávartegundum eins og loðnu, norsk-íslenskri síld og kolmunna, en þar er miðað við almanaksárið í úthlutun og ekki liggur fyrir hver makrílkvóti Íslendinga verður á næsta ári. Óvissa er um stöðu einstakra stofna eins og t.d. loðnunnar og því liggur ekki fyrir hver veiðigjöld verða vegna veiða á þessum tegundum.