*

laugardagur, 20. júlí 2019
Innlent 20. desember 2017 14:41

Þrír af 500 fá sérhæfða meðferð

Heilbrigðisráðherra hefur verið afhent áskorun um bætta þjónustu við fólk með heilaskaða en einungis brotabrot fær meðferð.

Ritstjórn
Frá hægri, Þórunn Hanna Lárusdóttir, formaður Fagráðs um heilaskaða, Guðrún Karlsdóttir yfirlæknir á Reykjalundi, Dr Jónas G. Halldórsson taugasálfræðingur, Stefán J. Stefánsson verkefnastjóri hjá Hugarfari og Guðrún Harpa Heimisdóttir formaður Hugarfars
Aðsend mynd

Fulltrúar stofnana og fagfólk í heilbrigðiskerfinu ásamt Hugarfari, samtökum einstaklinga með ákominn heilaskaða, afhentu í dag Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, formlega áskorun þess efnis að bæta þjónustu hið bráðasta við fólk með heilaskaða á Íslandi. 

Fóru fulltrúar Grensásdeildar LSH, Reykjalundi, Virk, Hugarfari og fagfólks í heilbrigðiskerfinu á fund heilbrigðisráðherra í morgun og afhentu ráðherra formlega áskorun. Þar er skorað á ráðherra að heilbrigðisráðherra skipa nefnd, með aðkomu fagðaðila og annarra hagsmunaaðila, til að vinna að heildarstefnumótun í málefnum fólks með ákominn heilaskaða að því er fram kemur í fréttatilkynningu um málið.

Einungis brotabrot fær meðferð

Árlega hljóta um 1.000 – 1.500 manns höfuðáverka á Íslandi og helmingur eru börn undir 19 ára aldri. Í heilbrigðiskerfinu er hvorki heildstæð stefna til í þessum málefnum né verkferlar til að fylgja eftir greiningu og meðferð þessara einstaklinga. Í dag hljóta einungis um 10-20% sérhæfða meðferð, en það er bara brot af þeim fjölda sem þarf á meðferð að halda, eftir sitja um 80-90% án greiningar, meðferðar og eftirfylgni. 

Í heilbrigðiskerfinu er ekki til skilgreint greiningarferli eða formleg endurhæfing fyrir börn með heilaskaða. Af þeim 500 einstaklinga undir 19 ára aldri sem fá heilaáverka árlega fá einungis einn til þrír einstaklingar greiningu og meðferð sem er ekki endilega sérhæfð fyrir börn með heilaskaða.

Ítrekað reynt að fanga athygli stjórnmálamanna

Guðbjörg Ludvigsdóttir yfirlæknir Grensásdeildar LSH, Guðrún Karlsdóttir yfirlæknir á Reykjalundi, Smári Pálsson taugasálfræðingur hjá VIRK starfsendurhæfingarsjóði, Dr. Jónas G. Halldórsson taugasálfræðingur, Guðrún Harpa Heimisdóttir formaður Hugarfars, og Þórunn Hanna Halldórsdóttir, talmeinafræðingur, og formaður Fagráðs um heilaskaða, funduðu með ráðherra um þetta brýna málefni

„Við sem störfum að málefnum fólks með ákominn heilaskaða höfum reynt ítrekað að fanga athygli stjórnmálamanna til að stuðla að því að stjórnvöld vinni að stefnumörkun í þessum málaflokki, “ segir Guðrún Harpa Heimisdóttir, formaður Hugarfars. „Málið er það brýnt að við ákváðum að fara þessa leið og ýta við þessum málum hjá heilbrigðisráðherra og stjórnmálamönnum.“

Smári Pálsson taugasálfræðingur segir að ráðherra hafi verið gerð grein fyrir knýjandi þörf á bættri þjónustu við fólk með heilaskaða. „Fagfólk er sammála um að vandinn liggur alls staðar í kerfinu og felst m.a. í því að þekkingu skortir á einkennum heilaskaða og afleiðingum hans, “ segir Smári.

„Það vantar að skilgreina og bæta þjónustu við einstaklinga með heilaskaða á öllum stigum, allt frá bráðastigi til endurhæfingar og til þátttöku í samfélaginu á ný,“ segir Guðrún Karlsdóttir yfirlæknir á Reykjalundi.  „Einstaklingar með viðvarandi einkenni og færnisskerðingu þurfa langtímaeftirlit og utanumhald sem er í raun ekki í boði.“

Dr. Jónas G. Halldórsson taugasálfræðingur segir afleiðingar heilaskaða á barnsaldri oft ekki koma fram fyrr en að fullorðnisaldri er náð.

„Það er sláandi að einungis eitt til þrjú börn með heilaáverka fái sérhæfða meðferð, af 500 börnum sem hljóta heilaáverka árlega,“ segir Jónas. „Meðferðin felst í skammtíma sjúkraþjálfun og lyfjameðferð en ekki í sérhæfðri íhlutun til lengri tíma.“