Tesla varð nýlega fyrsti bílaframleiðandinn til að ná 1.000 milljarða dala markaðsvirði . Hlutabréfaverð Tesla hefur tólffaldast frá ársbyrjun 2020 sem hefur gert forstjórann og meðstofnandann Elon Musk að ríkasta manni heims en auður hans er nú metinn á 270 milljarða dala. Sömu sögu er þó ekki að segja um hina fjóra stofnendur Tesla, en aðeins einn þeirra er í dag milljarðamæringur í dollurum talið. Forbes greinir frá.

Fáir tengja Tesla við upphaflega forstjórann Martin Eberhard sem kynnti fyrirtækið fyrir fjölmiðlum fyrir fimmtán árum og lýsti því yfir að sprotafyrirtækið úr Kísildalnum myndi kenna stóru bílaframleiðendunum hvernig framleiða eigi rafbíla. Eberhard og Marc Tarpenning, sem var fjármálastjóri fyrirtækisins í upphafi, stofnuðu rafbílaframleiðandann árið 2003. Hvorugur þeirra hefur haldið eftir nægilega mörgum hlutabréfum til ná einum milljarði dala í auðæfi.

Musk kom að Tesla í fyrstu fjármögnunarlotu fyrirtækisins en Musk lagði fram meirihlutann af 7,5 milljóna dala fjármögnuninni. Musk stækkaði við sig og náði stjórn á fyrirtækinu með þátttöku í níu fjármögnunarlotum fram að frumútboði Tesla árið 2010 en hlutur Eberhard og Tarpenning þynntist út við hverja lotu.

Haft er eftir Eberhard að hann eigi „tiltölulega lítinn“ hlut í Tesla í dag en hann seldi stóran hlut fyrirtækinu eftir að honum var ýtt út úr stjórnunarstöðunni árið 2007. Hann vildi ekki gefa upp hversu stóran hlut hann ætti í dag en staðfesti að hann væri ekki milljarðamæringur.

„Fólk heldur af einhverri ástæðu að ég hafi verið moldríkur þegar ég byrjaði með Tesla. Ég varð það ekki,“ segir Eberhard sem er 61 árs í dag.

Fimm mega skilgreina sig sem stofnendur Tesla

Eberhard stefndi Musk árið 2009 fyrir meiðyrði ásamt því að hafa bolað honum út úr fyrirtækinu. Málinu lauk með sáttum sem fólu meðal annars í sér að ásamt þeim Eberhard og Tarpenning, þá mættu Musk, þáverandi tæknistjórinn JB Straubel og Ian Wright, verkfræðingur sem starfarði hjá Tesla, formlega kalla sig stofnendur rafbílaframleiðandans.

„Þegar mér var sparkað út úr Tesla, þá átti ég engan pening. Ekki nóg með það heldur átti ég engan möguleika á atvinnu í heilt ár í kjölfarið,“ segir Eberhard og vísar í hugverkasamning á milli hans og Tesla.

Eberhard segir jafnframt að ekki hefði verið þörf á upphaflegu fjármögnuninni frá Musk ef hann og Tarpenning hefðu fengið meira fyrirtækið Rocket eBook, sem framleiddi lestölvur. Þeir seldu fyrirtækið fyrir 187 milljónir dala árið 2000.

„Gat ekki ímyndað mér billjón dala markaðsvirði!“

Tarpenning, sem er í dag meðeigandi hjá áhættufjárfestingafélaginu Spero Ventures, svaraði ekki fyrirspurnum Forbes. Hann hafði þó áður sagt að hann eigi enn hlutabréf í Tesla en er ekki skráður meðal stærstu hluthafa rafbílaframleiðandans.

Að Musk fráskildum er JB Straubal sá eini meðal hinna fjögurra stofnendanna sem gæti hafa náð milljarði dala í auðæfi vegna eignarhlutar síns í Telsa. Að því gefnu að hann hafi ekki minnkað hlut sinn verulega í fyrirtækinu, þá er eignarhlutur Straubel, sem var tæknistjóri Tesla á árunum 2004-2019, metinn á um 1,3 milljarða dala í dag. Straubel, sem er í dag forstjóri og meðstofnandi sprotafyrirtækisins Redwood Materials, sem endurvinnur batterí, neitaði að tjá sig um málið.

Fimmti stofnandinn, Ian Wright, seldi allan eignarhlut sinn í Tesla fyrir nokkrum árum. Hann yfirgaf Tesla árið 2004 til að stofna annan rafbílaframleiðanda. „Ég á engin hlutabréf í Tesla í dag. Ég gat ekki ímyndað mér eins billjón (e. trillion) dala markaðsvirði!“ hefur Forbes eftir Wright.

Segir Eberhard verstu manneskjuna sem hann hefur unnið með

Musk sagði í hlaðvarpsþætti í ársbyrjun 2020 að Eberhard væri „bókstaflega versta manneskja sem ég hef nokkurn tímann unnið með.“ Eberhard vildi ekki tjá sig um skoðanir sínar á Musk og vitnaði í framangreinda sátt. Hann kveðst þó ekki óánægður með velgengni Tesla í dag.

„Markaðsvirðið er það sem það er. Það sem ég er ánægður með er velgengni fyrirtækisins. Það er nauðsynlegt að við hættum að notast við jarðefnaeldsneyti og Tesla hefur spilað stórt hlutverk í þeirri þróun, sem er það sem við vonuðumst eftir í upphafi. Hver sem mín skoðun á Musk er í dag, þá er ég mjög glaður að fylgjast með rafbílabyltingunni – sem við hófum. Ég myndi vilja sjá hana verða ofan á. Hún verður að gera það,“ segir Eberhard.

Á laugardaginn síðasta tísti Musk um Eberhard og skrifar „Ég óska að ég hefði aldrei kynnst honum.“ Eberhard var nálægt því að „drepa“ Tesla með slæmum stjórnunarákvörðunum að sögn Musk. Hann ásakar Eberhard um slæma verkfræði, stórum mistökum þegar kemur að aðfangakeðjum og segir hann hafa ýtt út hæfileikaríku starfsfólki. Einnig ásakar Musk Eberhard um að hafa blekkt hluthafa um raunverlegan kostnað og tímaáætlun á Tesla Roadster bílnum.