Allt síðasta ár voru farnar tvær til sex ferðir á dag frá Keflavíkurflugvelli til Kaupmannahafnar á vegum Icelandair og Wow air. Það voru 412 þúsund farþegar sem nýttu sér þessar áætlunarferðir samkvæmt tölum frá dönsku samgöngustofunni og nam aukningin milli ára 3,5%. Það er Túristi sem greinir frá þessu.

Icelandair var þrettánda umsvifamesta flugfélagið á flugvelli Kaupmannahafnar og flugu 304 þúsund farþegar með félaginu til og frá dönsku höfuðborginni. Hlutdeild Icelandair á flugleiðinni milli Kastrup og Keflavíkur var því 74% og hefur hún haldist óbreytt síðustu fimm ár.