Þrjú fyrirtæki, IKEA, ISS Ísland og Íslenska gámafélagið voru í dag fyrstu fyrirtækin til að hljóta jafnlaunavottun VR eftir að BSI á Íslandi hafði staðfest að fyrirtækin hefðu staðist vottunina. Fyrirtækin hafa öll fengið staðfestingu á því að búið er að kerfisbinda launaákvarðanir, koma upp jafnlaunakerfi samkvæmt kröfum ÍST 85 og verður nú kerfisbundið fylgst með því hjá þessum fyrirtækjum að ekki sé verið að mismuna starfsfólki í launum eftir kyni að því er fram kemur í tilkynningu frá VR.

Jafnlaunavottun VR var kynnt þann 5. febrúar sl. og er ætluð fyrirtækjum og stofnunum sem vilja sýna svart á hvítu að launastefna þeirra og mannauðsstjórnun mismuni ekki konum og körlum. Á vef VR kemur fram að á þriðja tug fyrirtækja og stofnana hafa nú þegar sótt um og á næstu vikum sé þess vænst að fleiri þátttakendur ljúki vottunarferlinu og sýni fram á að leiðréttingar hafi verið gerðar þar sem þeirra er þörf. Þau fyrirtæki og stofnanir sem skrá sig til þátttöku skuldbinda sig til þriggja ára í senn.

„Það hefur verið afar ánægjulegt að sjá hversu vel fyrirtæki og stofnanir taka í þetta verkefni og nú erum við að sjá hvaða áhrif það hefur og mun hafa á íslenskum vinnumarkaði á komandi árum,“ segir Stefán Einar Stefánsson, formaður VR, en það að afhenta fyrirtækjunum vottunina var hans síðasta verk sem formaður félagsins þar sem hann mun láta af formennsku á aðalfundi VR í kvöld.