*

sunnudagur, 18. apríl 2021
Innlent 5. mars 2021 12:59

Þrír framleiðendur greiða 5 milljarða

Af 28 framleiðendum áfengs öls hér á landi standa þrír framleiðendur undir 96% af áfengisgjaldinu.

Jóhann Óli Eiðsson
Brugghúsið Kaldi fellur innan frumvarps Framsóknar en utan frumvarps dómsmálaráðherra.
Haraldur Guðjónsson

Af 28 framleiðendum áfengs öls hér á landi standa þrír framleiðendur undir 96% af áfengisgjaldinu. Alls innheimtast um 5,2 milljarðar króna í slíkt gjald ár hvert og greiða handverksbrugghúsin 25 því í kringum 200 milljónir króna.

Þetta kemur fram í athugasemd Skattsins við frumvarp dómsmálaráðherra, Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, um breytingu á áfengislögum. Breytingartillagan felur annars vegar í sér að heimilt verði að selja áfengi á framleiðslustað til neytenda og hins vegar að litlir framleiðendur, það er þeir sem framleiða 500 þúsund lítra eða minna ár hvert, verði undanþegnir áfengisgjaldi. Heimild til sölu áfengis gegnum netið mætti andstöðu innan ríkisstjórnarflokkanna.

Framleiðendurnir þrír sem standa undir meirihluta gjaldsins eru Ölgerðin, Vífilfell og síðan Bruggsmiðjan Kaldi á Árskógssandi. Síðastnefndi framleiðandinn er að vísu rétt yfir mörkunum, framleiðir um 600 til 650 þúsund lítra ár hvert.

„Ríkisskattstjóri bendir á nauðsyn þess að skýrt sé tekið á því hvernig þau viðmið horfi við á gildistökuári laganna, hvort heldur starfsemi er þegar hafin eða hefst eftir gildistöku þessara breytinga. Einnig er nauðsynlegt að skýrt komi fram hvernig fari almennt með tilvik þar sem aðili hefur framleiðslusölu eftir upphaf almanaksárs. Í þessu sambandi er einnig vert að vekja athygli á að liggja þarf ljóst fyrir hver viðbrögð skuli verða ef farið er fram úr því hámarki framleiðslu áfengis á almanaksárinu sem undanþágan miðast við,“ segir í umsögn Skattsins.

Embættið bendir einnig á að af texta frumvarpsins virðist ljóst að undir það falli sala á dósum og flöskum úr húsi til neytenda. Aftur á móti sé ekki ljóst hvort sala á bjórkútum geti talist til smásölu. Rétt væri að löggjafinn tæki af skarið varðandi það.

„Ríkisskattstjóri vekur ennfremur athygli á að ekki kemur fram í frumvarpi þessu hver skuli fara með eftirlit með því að viðmið um framleiðslumagn séu uppfyllt. Ætla má að við það verkefni gagnist helst áfengisgjaldsskýrslur sem skilað er til ríkisskattstjóra ásamt áfengisgjaldi eigi síðar en á gjalddaga,“ segir í umsögninni. Ekki liggi fyrir hvernig eftirlitinu skuli háttað verði frumvarpið að lögum. Flækjustig muni aukast og því sennilegt að aukinn kostnaður fyrir embættið muni fylgja endi eftirlitið þar.

Þess má geta að nokkrir þingmenn Framsóknarflokksins hafa lagt fram frumvarp til höfuðs frumvarpi dómsmálaráðherra. Að mörgu leyti er það efnislega samhljóða fyrir utan að afslátturinn á áfengisgjaldinu næði einnig til Kalda og að þak er sett á það magn sem neytendur geta verslað af framleiðanda hvert sinn.