„Þetta er niðurstaðan og við vinnum út frá því sem kemur frá dómnum hverju sinni,“ segir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, en dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur varð við þremur gæsluvarðhaldskröfum embættisins af fjórum yfir fyrrverandi starfsmönnum Glitnis. Síðasti úrskurðurinn féll nú á ellefta tímanum.

Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, var úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhalds fyrr í dag. Þeir Jóhannes Baldursson, fyrrverandi framkvæmdastjóri markaðsviðskipta Glitnis, og Ingi Rafnar Júlíusson, verðbréfamiðlari hjá Glitnis, voru úrskurðaðir í jafn langt gæsluvarðhald nú undir kvöld.

Jóhannes vinnur nú hjá Íslandsbanka og Ingi Rafnar hjá MP Banka.

Ólafur segir dómara skoða aðild hvers og eins að þeim málum sem embættið krefst gæsluvarðhalds yfir. Hún sé mismunandi og meti dómari hana við úrskurð sinn.

Gæsluvarðhaldskröfurnar eru liður í rannsókn embættisins á á lánveitingum og hlutabréfaviðskiptum Glitnis í viðskiptum tengdum FL Group og Stími í aðdranda hruns bankanna fyrir rúmum þremur árum.

Ólafur Þór Hauksson - Sérstakur saksóknari
Ólafur Þór Hauksson - Sérstakur saksóknari
© BIG (VB MYND/BIG)