Bækur eftir þrjá íslenska höfunda verða kynntar í þýskri þýðingu á Bókamessunni í Leipzig í Þýskalandi sem hófst í gær. Steinunn Sigurðardóttir kynnir þar bókina Jójó sem kom út hér á landi árið 2011, Gerður Kristný nýja þýðingu á bókinni Bátur með segli og allt. Vetrarsól eftir Auði Jónsdóttur verður einnig kynnt í nýrri þýskri þýðingu.

Á síðasta ári sló Bókamessan í Leipzig aðsóknarmet en þá sóttu 168.000 gestir hátíðina. Í ár kynna 2.180 bókaforlög bækur eftir ríflega 2.900 rithöfunda á messunni en hún er mjög mikilvæg fyrir þýska bókamarkaðinn. Bókamessan í Leipzig er önnur stærsta bókamessa Þýskalands á eftir Bókamessunni í Frankfurt en Ísland var heiðursgestur á þeirri messu árið 2011.