*

mánudagur, 13. júlí 2020
Innlent 22. apríl 2020 11:11

Þrír mánuðir til að laga áfengissölu

Íslenska ríkið fær þrjá mánuði til að laga fyrirkomulag áfengisverslunar Fríhafnarinnar til samræmis við EES.

Júlíus Þór Halldórsson
Fríhöfnin ehf. er í eigu ríkisins og rekur verslun í fríhöfn flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, sem aftur er rekin af ríkisfyrirtækinu ISAVIA.
Júlíus Sigurjónsson

Eftirlitsstofnun EFTA hefur gefið Íslenska ríkinu þrjá mánuði til að breyta fyrirkomulagi innkaupa og markaðssetningar áfengisverslunar fríhafnarinnar, sem ekki stenst ákvæði EES-samningsins í núverandi mynd, samkvæmt niðurstöðu stofnunarinnar frá því í nóvember 2018.

Deilt hafði verið um hvort líta ætti á Fríhöfnina ehf. sem ríkiseinokunarfyrirtæki, og því hvort ákvæði 16. greinar EES-samningsins um framkvæmd slíkrar einokunarverslunar ættu við. Í ákvæðinu er gerð krafa um gagnsætt og hlutlaust ferli við vöruinnkaup og auglýsingar, sem ekki geri upp milli viðskiptavina.

Íslenska ríkið vildi meina að líta bæri á Fríhöfnina ehf. sem einkafyrirtæki sem starfaði á markaðsforsendum. Það starfaði, bæði samkvæmt lögum og í framkvæmd, sem hvert annað einkafyrirtæki í verslunarrekstri í fríhöfn Leifsstöðvar, og ákvarðanir um innkaup og markaðsetningu væru teknar með hagnaðarsjónarmið að leiðarljósi.

Þessu hafnaði Eftirlitsstofnun EFTA sem fyrr segir í nóvember 2018, og var íslenskum stjórnvöldum gert að breyta innkaupa- og markaðsetningarfyrirkomulagi Fríhafnarinnar ehf. til samræmis við ákvæði 16. greinar EES-samningsins.

Í dag gaf stofnunin svo út svokallað rökstutt álit, þar sem ítrekað var að í aðgerðarleysi íslenskra yfirvalda í þessum efnum fælist brot á EES-samningnum, sem yfirvöldum bæri að bæta úr innan þriggja mánaða.

Stikkorð: ESA EFTA Fríhöfnin