Eftirlitsstofnun EFTA hefur gefið Íslenska ríkinu þrjá mánuði til að breyta fyrirkomulagi innkaupa og markaðssetningar áfengisverslunar fríhafnarinnar, sem ekki stenst ákvæði EES-samningsins í núverandi mynd, samkvæmt niðurstöðu stofnunarinnar frá því í nóvember 2018.

Deilt hafði verið um hvort líta ætti á Fríhöfnina ehf. sem ríkiseinokunarfyrirtæki, og því hvort ákvæði 16. greinar EES-samningsins um framkvæmd slíkrar einokunarverslunar ættu við. Í ákvæðinu er gerð krafa um gagnsætt og hlutlaust ferli við vöruinnkaup og auglýsingar, sem ekki geri upp milli viðskiptavina.

Íslenska ríkið vildi meina að líta bæri á Fríhöfnina ehf. sem einkafyrirtæki sem starfaði á markaðsforsendum. Það starfaði, bæði samkvæmt lögum og í framkvæmd, sem hvert annað einkafyrirtæki í verslunarrekstri í fríhöfn Leifsstöðvar, og ákvarðanir um innkaup og markaðsetningu væru teknar með hagnaðarsjónarmið að leiðarljósi.

Þessu hafnaði Eftirlitsstofnun EFTA sem fyrr segir í nóvember 2018, og var íslenskum stjórnvöldum gert að breyta innkaupa- og markaðsetningarfyrirkomulagi Fríhafnarinnar ehf. til samræmis við ákvæði 16. greinar EES-samningsins.

Í dag gaf stofnunin svo út svokallað rökstutt álit , þar sem ítrekað var að í aðgerðarleysi íslenskra yfirvalda í þessum efnum fælist brot á EES-samningnum, sem yfirvöldum bæri að bæta úr innan þriggja mánaða.