„Við ætlum að umbylta Perlunni og reisa þar stærstu náttúrusýningu landsins," segir Agnes  Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Perlu norðursins. „Þetta verður sýning í heimsklassa á besta stað. Perlan á að verða einskonar einkennistákn Reykjavíkur — Eiffel-turn Íslands."

Perla norðursins er einkahlutafélag, sem stofnað var í kringum fyrirhugaða náttúrusýningu. Hluthafar í félaginu eru  Icelandic Tourism Fund I (ITF1), sem er fagfjárfestasjóður Landsbréfa,  Salta ehf., Lappland ehf. og Perluvinir ehf.
Síðasta vor samdi Perla norðursins við Reykjavíkurborg um leigu á Perlunni. Samningurinn er til 25 ára og fær Perla norðursins húsið afhent 10. janúar næstkomandi. Félagið greiðir borginni um 150 milljónir króna í leigu á mánuði eða 2.300 krónur á fermetra.

Stór fjárfesting

„Við gerum ráð fyrir að uppsetning sýningarinnar kosti um 1,5 milljarða króna og annað eins mun líklega fara í breytingar á húsinu. Heildarkostnaðurinn verður því líklega á bilinu 2,8 til 3 milljarðar, sem gerir þetta líklega að stærstu fjárfestingu tengdri afþreyingu í ferðaþjónustu hérlendis."

Á næsta ári verða byggð ísgöng í einum hitaveitutanki Perlunnar.

„Göngin verða um 70 metra löng og er hugsunin sú, að þegar fólk gengur inn muni það upplifa hvernig það er í raun að ganga inn í íshelli. Öll skilningarvitin verða virkjuð. Fólk mun finna fyrir kulda og vindi, geta komið við ísinn og heyrt hljóðin í honum. Þegar gestirnir koma út úr göngunum koma þeir inn á sýningarsvæði sem helgað er jöklum landsins.

Í Perlunni verður einnig stjörnuver. Þar verða þó ekki bara sýndar myndir af himinhvolfinu heldur einnig helstu náttúruperlum Íslands.

„Allt efnið er tekið með myndavél sem getur myndað í 360 gráður og verður þetta í 8K upplausn. Þeir Rangar Th. Sigurðsson og Valdimar Leifsson hafa undanfarið verið að taka upp efni víðsvegar um land."

Agnes segir að ísgöngin og stjörnuverið verði opnað næsta sumar. Sumarið 2018 muni sýningin enn stækka þegar sýning tengd flóru landsins og frekari jarðfræði verði opnuð.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .