*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Innlent 12. október 2021 11:31

Þrír nýir áfangastaðir hjá Play

Flugfélagið hefur bætt norsku borgunum Stafangri og Þrándheimi ásamt Gautaborg í Svíþjóð við sumaráætlun sína.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Play hefur bætt þremur áfangastöðum í Skandinavíu við sumaráætlun sína. Um er að ræða Stafangur og Þrándheim í Noregi ásamt Gautaborg í Svíþjóð. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu en miðasala til umræddra borga hefst í dag.

Flug til Gautaborgar hefst í lok maí og flogið verður til og frá borginni tvisvar í viku. Þá verður flogið tvisvar í viku til Stafangurs og Þrándheims og hefst flug einnig í lok maí.

Fram kemur að í dag er ekki flogið beint frá frá Íslandi til Gautaborgar, sem er önnur stærsta borgin í Svíþjóð. Þá er minnst á að í Stafangri í Noregi búa um tólf hundruð Íslendingar og einnig búi fjöldi Íslendinga í Þrándheimi.

Birgir Jónsson, forstjóri Play:

„Sala á flugmiðum hefur tekið kipp síðustu vikur og við finnum vel að fólk er tilbúið að ferðast. Við erum byrjuð að stækka leiðakerfið okkar og teljum nú tímabært að bjóða viðskiptavinum okkar upp á fleiri valkosti í Skandinavíu en með þessu fjölgum við áfangastöðunum okkar á Norðurlöndunum úr einum í fjóra. Margir Íslendingar eru búsettir á þessum slóðum og við teljum að við getum byggt upp hagkvæma flugáætlun á þessa staði, bæði með eftirspurn frá Íslendingum og heimamönnum.“

Stikkorð: Play sumaráætlun