Síminn hefur sett á laggirnar nýtt svið upplýsingatækni sem á að þjónusta fyrirtæki og stofnanir. Stofnun sviðsins er liður í hagræðingu og uppstokkun á rekstri fyrirtækisins. Liður í því var samruni Símans og Skipta, sem áður var móðurfélag Símans.

Í tengslum við breytinguna hafa þrír nýir framkvæmdastjórar verið ráðnir.

Guðmundur Stefán Björnsson verður framkvæmdastjóri Upplýsingatæknisviðs Símans en hann hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra Sölu- og þjónustusviðs. Birna Ósk Einarsdóttir verður framkvæmdastjóri Sölu og þjónustusviðs en hún stýrði áður Markaðssetningu og vörum. Magnús Ragnarsson tekur við starfi Birnu sem framkvæmdastjóri Markaðssetningar- og vörusviðs. Þau Guðmundur og Birna hafa unnið um nokkurra ára skeið hjá Símanum. Magnús kemur nýr inn en hann hefur síðan í fyrra verið aðstoðarmaður Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra.

Fram kemur í tilkynningu frá Símanum að fyrirtækið hyggist með stofnun upplýsingasviðsins skerpa á starfsemi sinni á upplýsingatæknimarkaði. Nýtt svið muni einbeita sér að rekstri, þjónustu, vöruþróun og sölu á upplýsingatækni. Upplýsingatæknisvið Símans, með um 90 sérfræðinga, verður ein öflugasta þjónustueining á þessu sviði á Íslandi við fyrirtæki og stofnanir.

Eftir þessa breytingu verður skýrari aðgreining en áður milli fjarskiptaþjónustu annars vegar og upplýsingatækni hins vegar. Áhersla verður lögð á stærri fyrirtæki og stofnanir hjá nýja sviðinu og aukið samstarf við dótturfélög Símans sem starfa á sviði upplýsingatækni, Sensa, Staka og Talentu. Staki og Talenta munu starfa undir sama þaki og Upplýsingatæknisvið Símans frá og með maí, þegar starfsemin flyst í Ármúla 31.