*

mánudagur, 1. júní 2020
Fólk 17. september 2019 16:44

Þrír nýir starfsmenn til Auðnu

Auðna Tæknitorg hefur ráðið þau Einar Mäntylä, Susan Christianen og Ástu Sóllilju Guðmundsdóttur.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Auðna Tæknitorg, sem er sameiginleg tækniyfirfærsluskrifstofa allra háskóla og helstu rannsóknastofnana landsins, hefur ráðið til sín þrjá starfsmenn, þau Einar Mäntylä framkvæmdastjóra og viðskiptaþróunarstjórana Susan Christianen og Ástu Sóllilju Guðmundsdóttur. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Einar Mäntylä er  með BSc. gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands og doktorsgráðu í sameindaerfðafræði frá Uppsölum í Svíþjóð, á sviði aðlögunar lífvera að krefjandi umhverfisaðstæðum. Einar hefur þriggja áratuga alþjóðlega reynslu af lífvísindum, líftækni og þróun líftæknilyfja og er frumkvöðull og meðstofnandi að ORF Líftækni hf. Einar er með Executive MBA í nýsköpun og sprotafyrirtækjamyndun frá Tækniháskólanum í Munchen (TUM). Hann hefur unnið sem frumkvöðull að tækni-,viðskipta- og vöruþróun á vísindalegum verkefnum og hefur unnið að stefnumótun á sviði nýsköpunar innan félagasamtaka og fyrirtækja. Einar leiddi undirbúning að stofnun Auðnu Tæknitorgs sem verkefnisstjóri nýsköpunar fyrir Háskóla Íslands og hefur sem slíkur setið í stjórnum Vísindagarða HÍ, Icelandic Startups og í stjórnum vísindalegra sprota úr HÍ.

Susan Christianen hefur unnið að tækniyfirfærslu fyrir Evrópsku geimvísinda-stofnunina (ESA) og hefur rúmlega áratugs alþjóðlega reynslu á sviði iðnhönnunar, tækniyfirfærslu, nýsköpunar, stefnumótunar, viðskiptaþróunar og markaðsmála. Sérsvið Susan er í hönnun-, rannsókn og þróun vara, búnaðar og sjálfbæri lausnir fyrir krefjandi umhverfisaðstæður á Norðurslóðum. Hún er frumkvöðull og stofnandi Extreme Design Lab, og hefur unnið hér á landi að verkefnastjórn, viðskiptaþróun og hönnunarverkefnum fyrir 66°Norður, Sjávarklasann, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Utanríkisráðuneytið, Arctic Circle Assembly, Perlan vísindasafn, Into the Glacier, og að markaðssetningu hjá Nikita Clothing.

Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir er með MBA frá Háskólanum í Reykjavík, diplóma í stjórnun frá Harvard háskóla auk mastersgráðu i heilbrigðisvísindum og BS gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands. Hún hefur fimm ára reynslu úr nýsköpun og fjárfestingum sem fjármálastjóri Volta ehf. Áður starfaði Ásta í lyfja- og líftæknigeiranum m.a. fyrir Actavis og Íslenska erfðagreiningu og vann að viðskiptaþróun í ferðageiranum. Ásta er stjórnarformaður Laka Power ehf sem er nýsköpunarfélag á sviði umhverfisvænna orkulausna.

Stikkorð: Auðna Tæknitorg