Miklar breytingar hafa orðið hjá auglýsingatofunni Brandenburg að undanförnu en starfsmenn stofunnar eru nú tæplega 30 talsins með ráðningu þriggja nýrra starfsmanna. Auk þess hefur Rúna Dögg Cortez tekið sæti í framkvæmdastjórn fyrirtækisins.

Nýjustu starfsmenn auglýsingastofunnar eru Birta Svavarsdóttir samfélagsmiðlari, Ingunn Guðmundsdóttir viðskiptastjóri og Þura Stína Kristleifsdóttir grafískur hönnuður.

Birta Svavarsdóttir hefur meðal annars starfað hjá Plain Vanilla og sem blaðamaður á Vísi en hún er með BA gráðu í kvikmyndafræði og bókmenntum frá Háskóla Íslands.

Ingunn Guðmundsdóttir starfaði sem aðstoðarmaður forstjóra Plain Vanilla og var fyrir það  verkefnastjóri hjá Latabæ .

Þura Stína Kristleifsdóttir kemur eins og fyrr segir inn á Brandenburg sem grafískur hönnuður en hún er útskrifuð sem slíkur frá Listaháskóla Íslands. Eins er Þura Stína lærður skipstjóri með 7000 sjómílur að baki.

Nokkrar breytingar hafa einnig verið gerðar innan starfshóps stofunnar. Ásdís Gunnarsdóttir sem unnið hefur í móttöku og reikningagerð hjá Brandenburg frá árinu 2014 er nú orðin skrifstofustjóri og voru þrír grafískir hönnuðir gerðir að listrænum stjórnendum (e. Art Director). Þetta eru þau Ásgerður Karlsdóttir, Davíð Arnar Baldursson og Gísli Arnarson.

Rúna Dögg Cortez , stafrænn stjórnandi frá ársbyrjun 2014, hefur nú tekið sæti í framkvæmdastjórn fyrirtækisins. Fyrir í stjórninni eru þeir Ragnar Gunnarsson framkvæmdastjóri og Hörður Lárusson teiknistofustjóri. Rúna Dögg segist fagna því að vera komin í framkvæmdastjórn og þeim verkefnum sem því fylgja.

„Ásamt því að vera stafrænn stjórnandi hef ég haft umsjón með stefnumótun og samfélagsmiðlun á stofunni undanfarin þrjú ár,“ er haft eftir Rúnu í fréttatilkynningu.

„Við ætlum okkur enn stærri hluti í netmarkaðssetningu og er Birta einmitt fengin inn til að styrkja það svið með okkur hér á Brandenburg. Það er allt að gerast á samfélagsmiðlum í dag og því mikill fengur að fá hana inn líkt og Ingunni og Þuru Stínu“

Um Brandenburg:

Brandenburg auglýsingastofa var stofnuð í ársbyrjun 2012 af þeim Braga Valdimar Skúlasyni, Jóni Ara Helgasyni, Hrafni Gunnarssyni og Ragnari Gunnarssyni og fagna því starfsmenn fimm ára afmæli hennar í ár.

Stofan er meðlimur í SÍA (Samband íslenskra auglýsingastofa) og hefur undanfarin þrjú ár fengið flestar tilnefningar til Lúðursins, íslensku auglýsingaverðlaunana.

Verðlaunin verða veitt á morgun föstudaginn 10. mars á Ímark deginum í Eldborgarsal Hörpu en Brandenburg auglýsingastofa er tilnefnd til 16 verðlauna.