Þrír nýir starfsmenn hafa verið ráðnir til Capacent, og munu bætast við hóp ráðgjafa sem sérhæfa sig í stefnumótun fyrir fyrirtæki og opinbera aðila.

Héðinn Unnsteinsson mun starfa sem ráðgjafi opinberrar stefnumótunar. Héðinn hefur starfað sem stefnumótunarsérfræðingur í forsætisráðuneytinu síðustu 8 ár, og var meðal annars formaður Stefnuráðs Stjórnarráðsins. Hann hefur auk þess sinnt stundakennslu í stefnumótun og áætlanagerð við Háskóla Íslands, og starfaði áður hjá heilbrigðisráðuneytinu og Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni. Héðinn er með meistaragráðu í alþjóðlegri stefnumótun og stefnugreiningu frá Háskólanum í Bath á Englandi.

Ingunn Guðmundsdóttir mun sinna stefnumótun og innleiðingu stefnu. Hún mun koma að áframhaldandi verkefnum á sviði jafnréttisvísis Capacent þar sem unnið er með fyrirtækjum og stofnunum að stefnumótun og markmiðasetningu í jafnréttismálum. Hún starfaði áður sem viðskiptastjóri hjá Brandenburg og hjá nýsköpunarfyrirtækinu Plain Vanilla, sem verkefnisstjóri á skrifstofu forstjóra. Ingunn er með BA gráðu í stjórnmálafræði með áherslu á kynjafræði.

Ásgeir Runólfsson mun koma að stefnumótunarverkefnum fyrir fyrirtæki jafnt sem opinbera aðila. Ásgeir hefur sérfræðiþekkingu á opinberum fjármálum og hefur meðal annars komið að stefnumótun stjórnvalda í húsnæðismálum, kostnaðargreiningum stórra verkefna, og verðmati fyrirtækja. Hann starfaði við fyrirtækjaráðgjöf hjá Capacent á árunum 2010-2013, en þá fór hann til starfa hjá Alþingi sem pólitískur ráðgjafi formanns samfylkingarinnar. Á árunum 2007-2010 starfaði Ásgeir hjá Landsbankanum við greiningar á fasteignamarkaðnum.