Landsvirkjun hefur ráðið þrjá nýja starfsmenn í markaðs- og viðskiptaþróun og eru ráðningarnar liður í að efla starfsemi fyrirtækisins á sviði markaðsmála. Markmið Landsvirkjunar er að fjölga viðskiptavinum með því að sækja inn á nýja markaði og samhliða því að auka þjónustu við núverandi viðskiptavini. Tveir viðskiptastjórar og einn sérfræðingur hafa verið ráðnir til þess að styrkja markaðsstarf og þjónustu fyrirtækisins frekar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsvirkjun.

Úr tilkynningu:

Stella Marta Jónsdóttir er nýr viðskiptastjóri

Stella Marta Jónsdóttir
Stella Marta Jónsdóttir
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Stella Marta Jónsdóttir hefur verið ráðin sem viðskiptastjóri og mun hún bera ábyrgð á raforkusölu Landsvirkjunar á heildsölumarkaði auk þess að halda utan um hluta af núverandi viðskiptavinum. Stella lauk Ph.D gráðu í verkfræði frá Danmarks Tekniske Universitet 1998 og M.Sc. gráðu í vélaverkfræði frá Háskólanum í Álaborg 1991. Frá árinu 2006 hefur hún starfað sem framkvæmdastjóri Kaffitárs og áður starfaði hún hjá Maritech og sem verkefnisstjóri hjá danska ráðgjafafyrirtækinu NIRAS.

Ríkarður Ríkarðsson er nýr viðskiptastjóri

Ríkarður Ríkarðsson
Ríkarður Ríkarðsson
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Ríkarður Ríkarðsson hefur verið ráðinn sem viðskiptastjóri og mun hann bera ábyrgð á þróun viðskipta við gagnaver auk þess að halda utan um viðskipti við hluta af núverandi viðskiptavinum. Ríkarður lauk M.Sc. gráðu í rafmagnsverkfræði frá Stanford 2002 með áherslu á þráðlaus samskipti. Ríkarður hefur starfað sem ráðgjafi hjá McKinsey & Company í Kaupmannahöfn frá árinu 2009. Á árunum 2006-2009 starfaði Ríkarður hjá íslenskum fjármálafyrirtækjum og 2002-2006 vann hann hjá Xilinx, bandarískum framleiðanda á örgjörvum, fyrst með aðsetur í Kaliforníu við vöruþróun en síðar með aðsetur í London við þróun á viðskiptum og sölu til evrópskra tæknifyrirtækja.

Eyrún Guðjónsdóttir ráðin sérfræðingur

Eyrún Guðjónsdóttir
Eyrún Guðjónsdóttir
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Eyrún Guðjónsdóttir hefur verið ráðin sem sérfræðingur í viðskiptaþróun og mun hún bera ábyrgð á greiningu og uppbyggingu viðskipta sem tengjast kolefnismörkuðum og grænum skírteinum ásamt almennri ráðgjöf. Eyrún lauk M.Sc. gráðu í alþjóðafjármálum 2008 og B.Sc. prófi í viðskiptalögfræði 2005 frá Háskólanum á Bifröst. Eyrún stofnaði ráðgjafarfyrirtækið KOLKU í upphafi árs 2009 en starfsemi þess byggist á greiningu, ráðgjöf og viðskiptum með kolefnisheimildir. Áður starfaði Eyrún í sex ár hjá Íslandsbanka, síðast sem lánastjóri fyrirtækja.

Viðskiptastjórar á sviðinu eru að loknum þessum ráðningum þrír, en auk Stellu og Ríkarðs er Edvard G. Guðnason viðskiptastjóri. Viðskiptastjórar bera ábyrgð á rekstri samninga og samskiptum við núverandi og væntanlega viðskiptavini. Auk þess sinna þrír starfsmenn greiningu og viðskiptaþróun. Viðskiptaþróun styður við bak viðskiptastjóra með greiningu á mörkuðum, undirbúningi samningsgerðar og þróun á nýjum vörum. Einar Kristjánsson er forstöðumaður viðskiptaþróunar, og Þórólfur Nielsen verkfræðingur er sérfræðingur. Framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunar er Magnús Bjarnason.