*

þriðjudagur, 18. júní 2019
Fólk 24. september 2018 15:43

Þrír nýir stjórnendur hjá Völku

Auður Ýr Sveinsdóttir, Egill Sveinbjörn Egilsson og Guðjón Ingi Guðjónsson hafa verið ráðin til fiskvinnslutækjafyrirtækisins Völku.

Ritstjórn
Í röð: Guðjón, Egill og Auður.
Aðsend mynd

Þrír nýir stjórnendur hafa verið ráðnir til fiskvinnslutækjafyrirtækisins Völku. Auður Ýr Sveinsdóttir sem aðstoðarframkvæmdastjóri, Egill Sveinbjörn Egilsson sem vörustjóri vél- og hugbúnaðar, og Guðjón Ingi Guðjónsson sem svæðissölustjóri.

Auður hefur undanfarin tvö ár stýrt rekstrarsviði fyrirtækisins. Hún er sögð hafa víðtæka reynslu úr hinu alþjóðlega viðskiptaumhverfi og starfaði áður í tíu ár sem yfirmaður gæðastjórnunar, til að mynda við straumlínustjórnun og innri samskipti hjá álveri Rio Tinto í Straumsvík.

Auður er með B.Sc. gráðu í sjávarvísindum frá Coastal Carolina University og M.Sc. í umhverfisefnafræði frá University of Maryland í Bandaríkjunum.

Egill hefur lengst af starfað við vöruþróun hjá Össuri á alþjóðlegum vettvangi, eða allt frá árinu 2001 og leitt þar verkefni og teymi. Egill sat í framkvæmdastjórn rannsóknar- og þróunardeildar Össurar og á þátt í fjölmörgum einkaleyfum sem liggja að baki vörulínum fyrirtækisins. Hann kom að stofnun Hönnunarmiðstöðvar Íslands árið 2007, tók virkan þátt í uppbyggingunni, sat þar í stjórn og var formaður stjórnar á árunum 2014 til 2016.

Egill er með BA gráðu frá Design Academy Eindhoven í Hollandi og MBA frá Háskóla Íslands.

Guðjón hefur víðtæka reynslu úr sjávarútvegi og hefur lengst af unnið að framleiðslu-, sölu- og markaðsmálum. Guðjón starfaði um árabil sem innkaupa- og sölustjóri hjá Sölusambandi íslenskra fiskframleiðenda og að gæða- og framleiðslumálum hjá Nord-Morue, dótturfélagi SÍF í Frakklandi.

Guðjón er menntaður útvegstæknir frá Tækniskóla Íslands og tækniteiknari frá Iðnskólanum á Akureyri.

Stikkorð: Valka
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is