*

sunnudagur, 19. september 2021
Innlent 7. október 2020 12:21

Þrír stærstu með 4,3% í Icelandair

30 einkafjárfestar fjárfestu fyrir 2,5 milljarða í Icelandair útboðinu. Pálmi Haraldsson er stærstur með ríflega 2% eignarhlut.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Þrír stærstu einkafjárfestar í Icelandair fara með 4,3% samanlagt, en 30 einstaklingar og eignarhaldsfélög fjárfestu fyrir 2,5 milljarða króna í útboði flugfélagsins á dögunum að því er Fréttablaðið greinir frá. Auk þess halda bankarnir á stórum eignarhlutum, eða samtals 15%, fyrir viðskiptavini á veltubók og í framvirkum samningum.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um hélt Icelandair 23 milljarða króna hlutafjárútboð á dögunum þar sem hlutur fyrrum hluthafa þynntist um 80%. Gildi lífeyrissjóður er nú stærsti hluthafinn í félaginu með um 6,6% eignarhlut en meðal 20 stærstu raða sér margir lífeyrissjóðir og aðrir stofnanafjárfestar.

En meðal umsvifamikilla einkafjárfesta má nefna Pálma Haraldsson fyrrverandi stjórnarformann Icelandair, sem nú á 2,05% í Icelandair, Högni Pétur Sigurðsson, eigandi Hard Rock Café, sem á nú 1,36% í félaginu og hjónin Bogi Þór Siguroddsson og Linda Björk Ólafsdóttir sem eiga Johan Rönning.

Samtals fjárfestu félög í eigu þessara fjárfesta fyrir 900 milljónir í útboðinu og eiga þar með til viðbótar við fyrri eignarhluti samtals 4,3% í flugfélaginu, en bæði Pálmi og Högni áttu talsvert í félaginu fyrir. Þannig hélt Pálmi sínum 2% hlut, en hlutur Högna þynntist töluvert og er hann nú 1,36%.

Bóksal, félag Boga Þórs og Lindu Björk átti ekki í félaginu fyrir, en keypti í útboðinu fyrir rúmlega 250 milljónir króna. Skeljungur keypti jafnframt fyrir 126 milljónir króna í útboðinu og eignast þar með 0,44% hlut í Icelandair. Jafnframt keyptu tryggingafélögin, utan VÍS, fyrir samtals 220 milljónir króna, þar af Sjóvá fyrir 94 milljónir en Vörður og TM fyrir um 63 milljónir hvor.

Meðal annarra einkafjárfesta sem fjárfestu fyrir á bilinu 30 til 100 milljónir króna í útboðinu eru þau Eiríkur Vignisson, sem er fyrir stór hluthafi í Kviku og Brim, Þorvaldur Gissurarson, eigandi ÞG Verktaka, Snæból, félag hjónanna Finns Rey Stefánssonar og Steinunnar Jónsdóttur, Hannes Hilmarsson, forstjóri Air Atlanta, Róbert Wessman forstjóri og stofnandi Alvogen, Ólafur Torfason eigandi Íslandshótela og Örvar Kjærnested, stjórnarformaður TM.

Hér má lesa frekari fréttir um hlutafjárútboð Icelandair: