Þrír stafrænir hönnuðir hafa bæst í hóp starfsmanna Kosmos & Kaos, en fyrirtækið hefur skapað sér sérstöðu í stafrænum viðskiptum segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

Hjá Kosmos & Kaos starfa nú 17 manns og er fyrirtækið með starfsstöðvar að Hólmaslóð 4 í Reykjavík og á Hafnargötu 35 í Reykjanesbæ.  Eigandi fyrirtækisins er Guðmundur Bjarni Sigurðsson sem sinnir einnig starfi hönnunarstjóra.

Lærði og vann í Ástralíu

Áskell Fannar Bjarnason , eða Keli eins og hann kýs að vera kallaður, er þrítugur hönnunargúru frá Þorlákshöfn. Hann býr í Vesturbænum ásamt sambýliskonu sinni og tveggja ára syni þeirra. Keli útskrifaðist úr Margmiðlunarskólanum árið 2010 og flutti til Ástralíu árið eftir, en þar eyddi hann næstu 5 árum í að sanka að sér og skerpa þekkingu og getu sína í öllu því sem við kemur hönnun.

Hann stundaði nám við Billy Blue Hönnunarháskólann og tók BA gráðu í Digital Media Design á milli þess sem hann tókst á við öldurnar á ströndum Sydneyborgar. Keli hefur meðal annars unnið að ýmsum verkefnum hjá fyrirtækjum á borð við ABC (Australia), MRM//McCann, Stan, invoice2go og fleiri.

Áskell Fannar Bjarnason
Áskell Fannar Bjarnason
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Lærðu í Danmörku

Baldur Jón Kristjánsson er 35 ára Reykvíkingur með margra ára reynslu sem hönnuður fyrir bæði stafræna- og prentmiðla og vann síðast hjá Já.is sem vöruhönnuður. Baldur bjó í Álaborg í Danmörku frá árinu 2008 og útskrifast úr Álaborgaraháskóla árið 2014 með Msc. í Interactive digital media. Baldur er í sambúð með Guðrúnu Magnúsdóttir og eiga þau saman Rebekku Ísis.

Baldur Jón Kristjánsson
Baldur Jón Kristjánsson
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Jóna Dögg Sveinbjörnsdóttir er vefhönnuður með yfir 12 ára reynslu í vefbransanum og kemur úr Garðabænum. Hún er með diplóma í margmiðlunarhönnun frá Nordic Multimedia Academy í Danmörku frá árinu 2006.

Einnig hefur hún lært margmiðlun í Iðnskólanum í Reykjavík (nú Tækniskólanum), iðnhönnun í Iðnskólanum í Hafnarfirði og er stúdent af myndlistar- og handíðarbraut úr Fjölbraut í Garðabæ.  Jóna Dögg er gift Vali Sverrissyni forritara og búa þau í Garðabæ ásamt þremur loðnum kisum.

Jóna Dögg Sveinbjörnsdóttir
Jóna Dögg Sveinbjörnsdóttir
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Mismunandi reynsla mikill virðisauki

Inga Birna Ragnarsdóttir framkvæmdastjóri er ánægð með viðbótina og segir það ótrúlegan virðisauka fyrir fyrirtækið að fá inn hönnuði með mismunandi reynslu.

“[S]aman búum við að margra áratuga reynslu og þekkingu á þessum markaði. Það er ekkert mál að bæta við starfsfólki, en að bæta við réttu starfsfólki á réttum tíma er happdrætti,“ segir Inga Birna. „Það er ekki ofsögum sagt að við séum afar heppin með alla þá sem skapa Kosmos & Kaos, við erum ekki að reyna að vera stór heldur best.”

Um Kosmos & Kaos

Kosmos & Kaos var stofnað árið 2010 og hefur fyrirtækið vakið athygli fyrir metnaðarfulla vefhönnun, auk áherslu á samfélagslega ábyrgð, umhverfisvernd og lýðræði í ákvarðanatöku. Fyrirtækið hefur einnig verið í vöruþróun á undanförnum árum og hefur styrkt stöðu sína í forritun og stafrænni hönnun.

Á meðal viðskiptavina þess má nefna Arion banka, Vodafone, Orkuveituna, Gagnaveitu Reykjavíkur, Orku Náttúrunnar, Íslandsstofu, Nordic Visitor og Sjóvá. Sautján manns starfa hjá fyrirtækinu í Reykjavík og Reykjanesbæ.