Reglur um skipan fulltrúa SA í stjórnir lífeyrissjóða voru settar og samþykktar af stjórn í upphafi árs til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra, grun um hagsmunaárekstra og til að tryggja óhæði stjórnarmanna lífeyrissjóða. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Samtökum atvinnulífsins.

„Það er ekkert svigrúm í reglum SA til undantekninga,“ er einnig tekið fram í tilkynningunni.

Til þess að koma í veg fyrir mögulega hagsmunaárekstra hafa tveir stjórnarmenn í Lífeyrissjóði verzlunarmanna og einn stjórnarmaður í Birtu lífeyrissjóði sagt sig úr stjórnum sjóðanna frá og með deginum í dag. Þetta gera stjórnarmennirnir að eigin frumkvæði vegna þess að þeir sitja einnig í stjórnum skráðra hlutafélaga sem samræmist ekki nýjum reglum SA sem tóku gildi um áramótin.

*Það er ljóst að betur hefði mátt standa að kynningu á umræddum breytingum til stjórnarfólks af hálfu Samtaka atvinnulífsins og eru hlutaðeigandi beðnir velvirðingar á því,“ er enn fremur tekið fram í tilkynningunni. Einnig bætir SA við að aðalatriðið sé að faglega sé staðið að skipan stjórnarmanna í lífeyrissjóði af hálfu SA.

Áður hefur verið fjallað um það að Úlfar Steindórsson sem sat bæði í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og stjórn Icelandair, hafi verið undanskilinn nýju reglunum.