Þrír stjórnendur á áhættustýringarsviði bandaríska bankans JP Morgan Chase hætta í kjölfar tveggja milljarða taps vegna viðskipta með fyrirtækjaskuldabréf. Starfsmenn deildarinnar veðjuðu á að hagur efnahags Bandaríkjanna myndi vænkast meira en hann gerði og myndi það skila sér í hækkun á verði fyrirtækjaskuldabréfa. Það gekk ekki eftir og mun skila því að bankinn tapar 800 milljónum dala á 2. ársfjórðungi í stað þess að hagnast um 200 milljónir.

Jamie Dimon, bankastjóri JP Morgan Chase, sagði við fjölmiðla um helgina viðskiptin hafa verið mistök og greinilegt að eftirlit innan bankans hafi brugðist.

Yfirmaðurinn var með 79 milljónir króna í mánaðarlaun

Bandaríska dagblaðið The Wall Street Journal greindi frá því í gær að einn stjórnendanna, Ina Drew, framkvæmdastjóri fjárfestingasviðs JP Morgan Chase, hafi sagt upp störfum vegna málsins. Blaðið sagði í gær næsta víst að tveimur undirmönnum hennar verði sparkað og kannski þeim þriðja sömuleiðis. Í Wall Street Journal segir að orðspor Drew hafi í gegnum tíðina verið gott í bandarískum fjármálageira og hún talin með þeim betri í greininni. Ina Drew er jafnframt með hæstlaunuðust framkvæmdastjórum JP Morgan en laun hennar síðastliðin tvö ár hafa numið 15 milljónum dala. Það gera 1,9 milljarða íslenskra króna eða sem svarar 79 milljónum krónum að meðaltali á mánuði.

Bankinn greindi sjálfur frá málinu eftir lokun hlutabréfamarkaða á fimmtudag. Um helgina kom svo fram að þegar ljóst var að JP Morgan Chase myndi tapa á veðmáli þeirrar deildar sem Drew stýrði sagði hún upp. Orðspor hennar var hins vegar slíkt að yfirmenn bankans tóku uppsögn hennar ekki til greina.