Eins og greint var frá í Viðskiptablaðinu í síðustu viku hafa fasteignafélögin Reitir og Eik tilkynnt um skráningu félagana á Aðalmarkað Kauphallarinnar í apríl á þessu ári. Forsvarsmenn félaganna tveggja neita að gefa upp að svo stöddu hversu stóran hlut hvert þeirra mun bjóða út né hvert skráningargengi útboðana verður. Arion banki mun sjá um skráningu þeirra beggja en hann leitast við að losa hlut sinn í félögunum í kjölfarið. Hlutur Arion banka í Reitum er 22% og 14,3% í Eik.

Hver verður sætasta stelpan?

Að sögn Sveins Þórarinssonar hjá hagfræðideild Landsbankans er erfitt að segja til um hver áhrif skráninganna verður fyrr en framboð bréfa og skráningargengi verður gefið út.

„Kannski verður lítið sett á markað,“ segir Sveinn. „Ég hef heyrt að þetta verði 12 milljarðar bæði félögin, þrír og níu milljarðar, en það eru óstaðfestar tölur. Samt sem áður, ef þú setur þessa upphæð í samhengi við arðgreiðslur sem voru upp á tuttugu milljarða, þá eru þetta ekkert svo stórar upphæðir.

Sveinn segir að þegar tryggingafélögin komu öll á markað hafi spennan dottið svolítið úr því að eiga í slíkum félögum. „Ef þú ert að stýra sjóði þá máttu bara vera ákveðið þungur í vissum atvinnugreinum. Það sama gildir um fasteignafélögin, og þá er bara spurning um hvort fjárfestar skipti sér jafnt á milli fyrirtækjanna eða hvort það myndist samkeppni um hver verður sætasta stelpan. Það sem mun ráða úrslitum um þetta er á hvaða verði þau verða skráð og hversu mikið verður til sölu.“

Nánar er fjallað um málið í Kauphallarblaðinu sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .