Þrír aðilar í dómstólaráði hafa lýst sig vanhæfa til tilnefningar á nýjum nefndarmanni í endurupptökunefnd í máli Ólafs Ólafssonar. Ráðið mun þurfa að tilnefna nýjan nefndarmann í stað Þórdísar Ingadóttur og Sigurðar Tómasar Magnússonar, varamanns hennar, en þau lýstu sig vanhæf til að fjalla um málið líkt og V iðskiptablaðið greindi frá í síðustu viku .

Þórdís á sæti í dómstólaráði og getur eðli máls samkvæmt ekki tekið þátt í tilnefningunni, en Hrefna Friðgeirsdóttir tekur sæti í hennar stað. Einnig hafa Símon Sigvaldason formaður og Hervör Þorvaldsdóttir, varamaður hans, vikið sæti vegna vanhæfis.

Fimm aðilar sitja í dómstólaráði. Þorgeir Ingi Njálsson, dómstjóri við Héraðsdóm Reykjaness, tekur við formennsku í nefndinni í fjarveru Símonar, og þá munu Jón Höskuldsson, Hjörtur Aðalsteinsson og Hrefna Friðgeirsdóttir taka þátt í tilnefningunni.

Að sögn Þorgeirs Inga Njálssonar, sem tekur við formennsku í dómstólaráði í fjarveru Símonar, er það nú í athugun hvort unnt sé að taka málið fyrir hjá ráðinu þrátt fyrir að það sé ekki fullskipað, en annars mun þurfa að skipa nýjan mann í ráðið. Hann gerir ráð fyrir að málið verði í fyrsta lagi tekið fyrir í næstu viku.

Þegar nýr nefndarmaður hefur svo verið skipaður í endurupptökunefnd mun nefndin byrja á því að taka afstöðu til kröfu Ólafs um að Kristbjörg Stephensen víki sæti í málinu . Það kann því að dragast verulega að mál Ólafs hljóti efnismeðferð fyrir nefndinni.