Þrír nefndarmenn í endurupptökunefnd, tveir aðalmenn og einn varamaður, hafa vikið sæti vegna vanhæfis í máli Ólafs Ólafssonar sem lagt var fyrir nefndina í síðasta mánuði. Þeir sem hafa vikið sæti eru Björn L. Bergsson, formaður nefndarinnar, Þórdís Ingadóttir og Sigurður Tómas Magnússon, sem er varamaður Þórdísar í nefndinni. Þetta staðfestir Björn í samtali við Viðskiptablaðið.

Nefndarmennirnir þrír víkja allir sæti vegna tengsla, en í umfjöllun Viðskiptablaðsins frá 22. apríl sl. kom fram að Björn hefði verið settur ríkissaksóknari í öllum málum sem heyrðu undir sérstakan saksóknara frá 8. ágúst 2009 til 1. janúar 2011. Þá er Þórdís persónulegur vinur Björns Þorvaldssonar, saksóknara í málinu, og Sigurður Tómas hefur starfað sem ráðgjafi fyrir sérstakan saksóknara frá árinu 2009.

Í endurupptökunefnd sitja þrír aðalmenn og þrír varamenn. Þær breytingar verða á nefndarskipaninni í máli Ólafs að Kristbjörg Stephensen borgarlögmaður, varamaður Björns, tekur sæti í hans stað og verður formaður nefndarinnar. Dómstólaráð mun þurfa að tilnefna nýjan aðila vegna vanhæfis Þórdísar og Sigurðar Tómasar, en þau eru upphaflega skipuð af ráðinu. Þriðji aðalmaður verður Elín Blöndal, lögfræðingur hjá Háskóla Íslands, en hún hefur ekki lýst yfir vanhæfi sínu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .