Nú er búið að manna allar stöður sveitar- og bæjarstjóra í sveitarfélögum landsins, sem nú eru 74. Í kjölfar þess gegna 56 karlar stöðu sveitar- og bæjarstjóra en einungis átján konur. Því eru þrisvar sinnum fleiri karlar sveitar- og bæjarstjórar.

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir í samtali við mbl.is að það stefni í að færri konur verði sveitar- og bæjarstjórar nú en fyrir fjórum árum. Hins vegar, eins og VB.is greindi frá eru hlutfallslega fleiri konur í sveitarstjórnum í dag en fyrir fjórum árum.

Halldór Halldórsson segist ekki hafa neina skýringu á þessu. Hann segist hafa talið að eftir því sem fleiri konur eru kjörnir fulltrúar, yrðu fleiri konur ráðnar. Hins vegar virðist ekkert samhengi þar á milli. Hann segir Samband íslenskra sveitarfélaga mun fara betur yfir málið og skoða niðurstöðuna.