Fasteignamat allra eigna stóru sendiráðanna þriggja hér á landi nemur um 3.250 milljónum króna. Áætlað markaðsvirði þeirra er um 6.370 milljónir, samkvæmt grófu verðmati sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum.

Fasteignirnar eru 14 talsins og rúma alls 14.425 fermetra. Fimm eru í eigu bandaríska sendiráðsins, fimm í eigu rússneska sendiráðsins og fjórar í eigu kínverska sendiráðsins og Viðskiptaskrifstofu Kína. Allar eru þær í Reykjavík. Sjö fasteignir eru í Vesturbænum, fimm í Miðborginni og tvær í Laugardalnum.

Nauðsynlegt er að slá nokkra varnagla. Verðmatið byggir meðal annars á markaðsaðstæðum, tegund eignar og staðsetningu. Um er að ræða áætlun á markaðsvirði fasteignanna án þess að framkvæmd sé nákvæm skoðun á eignunum, til að mynda að innan. Ástand fasteignanna miðast við að þær séu í góðu ástandi. Einnig verður að hafa í huga að um er að ræða sérhæfð húsnæði. Ekki hefur verið tekið tillit til kostnaðar sem settur hefur verið í breytingar á fasteignunum, svo sem í Bríetartúni 1 og á Engjateigi 7.

Kína á stærsta og verðmætasta safnið

Sendiráð Kína, ásamt Viðskiptaskrifstofu Kína, á stærsta og verðmætasta fasteignasafnið. Markaðsvirði safnsins er áætlað 2.530 milljónir króna en fasteignamatið er um 1.331 milljónir króna. Sendiráðið á Bríetartún 1, Fjólugötu 19B og Víðimel 29, en Garðastræti 41 er í eigu Viðskiptaskrifstofunnar. Fasteignirnar þekja samtals um 6.427 fermetra.

Kínverska sendiráðið hefur verið til húsa í Bríetartúni, þar sem Sjóklæðagerðin var áður, síðan 2012. Það er eina húsið í fasteignasafni sendiráðsins sem er í notkun, en starfsmenn sendiráðsins vinna bæði og búa í sendiráðinu með fjölskyldum sínum. Áður var sendiráðið á Víðimel 29 milli 1972 og 2012, sem kínverska alþýðulýðveldið keypti árið 1973. Húsið hefur síðan staðið autt, en mikið hefur skort á viðhald á húsinu og umhirðu á garðinum. Í góðu ástandi gæti húsið selst á 450 milljónir, en þá er ekki tekið tillit til viðhaldskostnaðar. Húsnæðið á Fjólugötu 19B hefur verið í eigu kínverska ríkisins frá árinu 1981 og var áður sendiherrabústaður Kínverja. Garðastræti 41, sem var íbúðarhús Ólafs Thors forsætisráðherra, hýsti Samtök atvinnulífsins til ársins 2002, þegar það var keypt af Viðskiptaskrifstofu Kína fyrir 91 milljón króna eða tæplega 181,6 milljónir á núvirði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .