Í samræmi við stefnu Landsbankans og loforð á aðgerðalista að jafna hlut karla og kvenna í forystusveit bankans hafa þrjár konur verið ráðnar í lykilstörf hjá bankanum. Í tilkynningu frá bankanum segir:

Halldóra Guðrún Hinriksdóttir forstöðumaður verkefnastofu Landsbankans
Halldóra Guðrún Hinriksdóttir forstöðumaður verkefnastofu Landsbankans
© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Halldóra Guðrún Hinriksdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður Verkefnastofu. Halldóra hefur mikla reynslu af stjórnun, verkefnastjórnun og ráðgjöf m.a. úr störfum sínum sem forstöðumaður Stjórnmenntar og Fagmenntar hjá HR, þar sem hún hefur starfað frá 2008. Hún hefur kennt verkefnastjórnun hjá íslenskum fyrirtækjum og stofnunum sl. 10 ár. Halldóra starfaði jafnframt sem verkefnastjóri í verkefnastofu hjá Íslandsbanka áður en hún hóf störf hjá HR. Þar á undan var hún ráðgjafi og þjálfari hjá Capacent (áður IMG) í sex ár. Halldóra er með MBA gráðu frá Edinborgarháskóla með áherslu á stefnumótun og fjármál, auk þess sem hún hefur sótt fjölda námskeiða á sviði stjórnunar og rekstrar. Halldóra er gift og á 2 dætur, 12 og 7 ára.

Hanna Björg Hauksdóttir
Hanna Björg Hauksdóttir
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Hanna Björg Hauksdóttir er nýr forstöðumaður reikningshalds hjá Landsbankanum. Hanna hefur starfað um árabil við endurskoðun, uppgjör félaga og skattaskil, eða frá árinu 1984.

Hanna er löggiltur endurskoðandi og starfaði sem framkvæmdarstjóri fjármálasviðs Iceland Sefood International frá árinu 2006. Hún sat einnig í stjórn Iceland Seafood ehf. og í varastjórn ISI Asia ehf., dótturfélaga Iceland Seafood International. Þar á undan starfaði hún hjá Hyrnu ehf. , 2004- 2006, við uppgjör á erlendum félögum. Hún starfaði hjá KPMG ehf. á árunum 2000 -2004 við uppgjör og endurskoðun. Hanna starfaði við bókhald og skattaskil hjá Ernst & Young ehf. frá 1997 – 2000. Hanna útskrifaðist frá Háskóla Íslands með Cand. Oecon. próf í viðskiptafræði árið 1993 með endurskoðun sem sérsvið. Hún varð löggiltur endurskoðandi árið 2006 frá HÍ. Hún hefur setið í stjórn Félags kvenna í endurskoðun frá 2009. Hanna er fráskilin og á tvo drengi.

Soffía Sigurgeirsdóttir sérfræðingur á skrifstofu bankastjóra Landsbankans
Soffía Sigurgeirsdóttir sérfræðingur á skrifstofu bankastjóra Landsbankans
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Soffía S. Sigurgeirsdóttir hefur verið ráðin til Landsbankans í stöðu sérfræðings á skrifstofu bankastjóra. Hún mun starfa að innri og ytri samskiptum bankans og málum um samfélagslega ábyrgð.

Soffía hefur víðtæka reynslu af stjórnun, markaðs - og kynningarmálum. Hún starfaði um árabil í bankageiranum eða frá árinu 2000 – 2008. Soffía starfaði sem forstöðumaður fjárfestatengsla og markaðsmála hjá Spron. Hún sat einnig i framkvæmdarstjórn bankans. Á árunum 2004 – 2008 starfaði hún sem markaðsstjóri Netbankans og var jafnframt staðgengill framkvæmdarstjóra. Þar á undan starfaði hún í fjögur ár sem forstöðumaður markaðsmála hjá Sambandi íslenskra sparisjóða (Sísp). Áður en hún gekk til liðs við Landsbankann starfaði Soffía sem framkvæmdarstjóri ElvesandTrolls.com, hún var ein af stofnendum félagsins. Soffía er með MSc í alþjóðasamskiptum frá London School of Econmics með krísustjórnun og friðarviðræður ríkja sem sérsvið. Hún er jafnframt með BA gráðu í sálarfræði frá Háskóla Íslands. Soffía situr í stjórn Vinafélags ABC barnahjálpar. Soffía er gift Bergi Rósinkranz hagfræðingi og eiga þau fjögur börn.

Unnið hefur markvisst að því að jafna hlut karla og kvenna í forystusveit bankans undanfarið ár. Þáverandi bankaráð Landsbankans samþykkti á fundi sínum 17. febrúar 2010, að bankinn skyldi tryggja fyrir árslok 2013 að hlutur hvors kyns verði ekki undir 40% í forystusveit bankans og dótturfélaga hans.“