Arion banki stefnir að því að selja hluta af eignarhlut sínum í Símanum á næstu mánuðum. Bankinn á nú um þriðjungshlut í fyrirtækinu, en hann hefur ekki gefið það út hversu stóran eignarhlut hann hyggst selja í útboðinu.

Heimildarmenn Viðskiptablaðsins í fjármálalífinu segja að sanngjarnt útboðsgengi hlutafjárins í Símanum geti legið í kringum 3 krónur á hlut. Verðhugmyndir á því rófi fást þegar kennitölur og markaðsvirði Vodafone, fjarskiptafyrirtækis sem þegar er skráð á aðalmarkað Kauphallarinnar, eru bornar saman við kennitölur Símans. Hafa ber í huga í þessu samhengi að ekkert er enn ljóst um útboðsgengi Símans og það gæti verið hærra eða lægra en 3 krónur.

Einkabankaþjónusta Arion keypti á u.þ.b. 2,8 krónur

Eitt af því sem mælir á móti því að útboðsgengið sé mikið hærra en 3 krónur er að stjórnendur Símans, ásamt fleiri fjárfestum, hafa keypt fimm prósent hlut í Símanum af Arion banka á 2,5 krónur af hlut. Þá mun einkabankaþjónusta Arion hafa keypt hlut í Símanum á gengi í kringum 2,8 krónur á hlut.

Líta má svo á að þessi verð myndi gólf á útboðsgengið. Viðmælendur Viðskiptablaðsins telja ólíklegt að útboðsgengi verði miklu hærra en gólfið. Á hinn bóginn hefur gagnrýni á síðustu hlutabréfaútboð meðal annars snúið að því að útboðsgengi hafi verið of hátt, það er að enginn útboðsafsláttur hafi verið gefinn. Því er ekki útilokað að útboðsgengi verði hærra en spáð er þegar kennitölur Símans og Vodafone eru bornar saman.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .