Fjöldi bandarískra heimila í greiðslustöðvun jókst úr 3,74% í 5,95% í upphafi síðasta mánaðar, sem gerir um þrjár milljónir eftir fjölgunina, og yfir milljón heimila aukningu á aðeins viku.

Efnahagsáhrif kórónufaraldursins og þeirra ráðstafana sem gripið hefur verið til vegna hans, þar á meðal fjöldauppsagnir og rekstrarerfiðleikar fyrirtækja, eru meðal ástæðna þess að fjöldi fasteignalána í greiðsluaðlögun (e. forbearance) – sem felur í sér tímabundna stöðvun greiðslna – tók ofangreint stökk. Hlutfallið samsvarar um 3 milljónum heimila.

Margir sáu fram á mikla fjárhagslega óvissu í upphafi aprílmánaðar eftir útgöngu- og samkomubönn og uppsagnir seinni hluta mars, og höfðu samband við lánadrottna í því skyni að fá greiðslum frestað.

Atvinnulausir hugsanlega hátt í 40 milljónir
Sagt hefur verið frá því að margir hafi átt í verulegum vandræðum með að sækja um atvinnuleysisbætur frá því efnahagsáhrif faraldursins fóru að láta á sér kræla.

Vinnumálayfirvöld í Bandaríkjunum eru almennt á fylkis-stiginu í stað alríkisins, og því allur gangur á því hvernig réttindum til atvinnuleysisbóta er háttað, og hversu burðugar stofnanirnar eru til að takast á við þá holskeflu umsókna sem borist hafa síðustu vikur, en sem fyrr segir hafa 26,5 milljónir manna, eða um sjötti hluti vinnuaflsins, sótt um frá því um miðjan mars.

Stór hópur fólks hefur því ekki enn getað sótt um bætur þrátt fyrir að eiga rétt á þeim, og í ofanálag eru margir, hvers lífsviðurværi hefur verið skert með beinum eða óbeinum hætti, sem eiga ekki rétt á bótum.

Samkvæmt könnun bandarískrar hugveitu hafa 3-4 manns ekki getað sótt um bætur fyrir hverja 10 sem sótt hafa um, og tveir þeim til viðbótar hafa ekki einu sinni gert tilraun til að sækja um. Niðurstöðurnar gefa til kynna að til viðbótar þeim 26,5 milljónum sem sótt hafa um séu rúmar 10 milljónir utan kerfisins og opinberu talnanna.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .