Kostnaður vegnar rekstrar þriggja óháðra og sjálfstæðra úrskurðarnefnda fjármála- og efnahagsráðuneytis kostuðu 137 milljónir króna á síðasta ári. Kostnaðurinn liggur að mestu hjá yfirskattanefnd eða rúmar 117 milljónir króna. Hinar nefndirnar tvær eru kærunefnd útboðsmála og ríikistollanefnd.

Þetta kemur fram í svari Katrínar Júlíusdóttur fjármálaráðherra við fyrirspurn Atla Gíslasonar um úrskurðarnefndir.

Atli spurði ráðherra m.a. að því hversu margar nefndir ráðuneytisins væru, hvað þær heiti og hvert verkefni þeirra sé.

Fram kemur í svari ráðherra að í nefndunum þremur sitja 12 einstaklingar. Þar af sitja sex í yfirskattanefnd og hafa fjórir nefndarmanna starfið að aðalstarfi. Við bætast þrír í ríkistollanefnd sem skipaðir eru til vara og fjórir í yfirskattanefnd. Ráðherra skipar í kærunefnd útboðsmála og yfirskattanefnd til fjögurra og sex ára í senn.