Þrjár sjálfsmorðsárásir voru gerðar í Sádi Arabíu á 24 klukkustundum nú í lok Ramadan föstumánaðar múslima.

Hryðjuverkabylgja í Ramadan mánuðinum

Var ein af árásunum í Medína, einni af helgustu borgum múslima. Árásirnar koma í kjölfar gríðarlegrar hryðjuverkabylgju á svæðinu sem teygir sig frá Tyrklandi til Íraks þar sem hundruðir hafa legið í valnum.

Eru árásirnar allar tengdar við hryðjuverkasamtökin Íslamska ríkið, sem einnig er kallað ISIS eða daesh, en samtökin höfðu heitið auknum árásum meðan á þessum helga mánuði múslima stæði.

Tvær árásanna mistókust

Árásirnar virðast hafa verið samhæfðar, en tveimur árásarmannanna tókst ekki að granda öðrum en sjálfum sér en þeim þriðja tókst að drepa fjóra. Var fyrsta árásin nálægt konsúli Bandaríkjamanna í Jeddah, og var árásarmaðurinn hinn 34 ára Abdullah Qlasar Khan frá Pakistan.

Í Qatif í austurhluta landsins reyndi einn að ráðast á mosku shíamúslima en enginn slasaðist. En fjórir létust í Medína, en árásinni var beint að öryggisvörðum í borginni.

Einnig var sjálfsmorðsárás gerð í gegn höfuðstöðvum lögreglu í borginni Solo í Indónesíu í morgun, þar særðist einn lögreglumaður.