Þrennt skýrir það að lítilsháttar samdráttur í landsframleiðslu mældist á fyrsta ársfjórðungi, samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Samkvæmt tölunum dróst landsframleiðsla saman um 0,1% borið samanborið við 1. ársfjórðung í fyrra. Á sama tíma jukust þjóðarútgjöld, sem eru samtala neyslu og fjárfestingar, um 2,1%.

Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Íslandsbanka, segir að þetta skýrist í fyrsta lagi af því að birgðabreytingar sem verði miklar að þessu sinni, dragi úr þjóðarútgjöldum og  landsframleiðslu. Yfirleitt sé gert ráð fyrir að þetta sé núlliður í útreikningum á landsframleiðslu yfir lengri tíma. „Þetta er eitthvað sem er tilfallandi og ætti ekki að breyta hagvaxtarhorfum fyrir árið í það heila,“ segir Ingólfur.

Í öðru lagi hafi innflutningur á þjónustu vaxið alveg gríðarlega hratt, eða um 19,5%. „Það sem er að skýra það er mikil kaup slitastjórna á erlendri ráðgjöf og einnig kaup stórra íslenskra fyrirtækja á erlendri ráðgjöf. Þetta er líka að stórum hluta eflaust tilfallandi og það þarf að horfa sérstaklega í þennan lið,“ segir Ingólfur.

Í þriðja lagi bendir Ingólfur á að þó að það hafi verið allnokkur vöxtur í einkaneyslu og fjárfestingu á fyrsta fjórðungi þá sé vöxturinn í þessum þáttum aðeins undir því sem Seðlabankinn hafði spá fyrir árið. Það skýrir að einhverju leyti þennan mun, þó að það sé ekki nema að litlu leyti skýringin. Meginmunurinn skýrist af tveimur fyrrnefndu þáttunum,“ segir Ingólfur.

Greining íslandsbanka gerir ennþá ráð fyrir að hagvöxtur í ár verði öflugur þó hann verði kannski örlítið hægari en Seðlabankinn gerir ráð fyrir í sinni nýjustu spá „Hagkerfið er alls ekki að fara í samdrátt,“ segir Ingólfur og bendir á að hafa verði í huga að um sé að ræða bráðabirgðatölur hjá Hagstofunni sem hafi tilhneigingu til að breytast við seinni tíma endurskoðun.