Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, segir aðstæður til nýskráninga á næsta ári lítið hafa breyst og að nú sé góður tími til að fara á markað.

„Ég lít björtum augum fram á næsta ár. Við erum í samskiptum við nokkra aðila sem eru að vinna að skráningu og ég geri mér góðar vonir um að þeir komi inn á markað, þó að það sé auðvitað aldrei hægt að segja til um það.

Næsta ár lítur betur út, þó svo að efnahagshorfur hafi lítið breyst. Það eru horfur á áframhaldandi uppgangi í hagkerfinu og óhætt er að fullyrða að áhugi á markaðnum hafi aukist. Þannig að ég held að næsta ár sé ágætur tími til að íhuga skráningu,“ segir Páll.

„Mér er ekki heimilt að greina frá því hvaða aðilar eru í undirbúningi varðandi mögulega skráningu á næstunni, en þetta eru a.m.k. þrjú verkefni og með­al þeirra er First North verkefni.“

Þetta eru aðilar sem hafa ekki tekið endanlegar opinberar ákvarð­ anir um skráningu og tímasetningu hennar. Því séu félög á borð við Heimavelli og Advania ekki í þeim hópi, en Heimavellir stefna á skráningu í lok næsta árs á með­ an forstjóri Advania segir það stefnu eigenda að skrá fyrirtækið á markað á Íslandi eða í Sví­þjóð. Því gætu fimm félög farið á markað á næsta ári.

Vill sjá 50 félög á markaði

Spurður hvað hann myndi vilja sjá mörg félög á markaði stendur Páll við það sem hann hefur sagt í nokkur ár og segir eðlilegt að hafa allt að 50 félög á aðalmarkaði og First North markaðnum til lengri tíma litið.

„Hlutabréfamarkaðurinn er of lítill. Ég held að það sé fullt efni til þess að vera hérna með svona 50 félög á markaði þegar fram í sækir, að jafnaði 30 til 35 félög á aðalmarkaði og 15 til 20 á First North.

Ég segi þetta meðal annars í ljósi þess að við erum með gríð­ arlega mikilvægar atvinnugreinar á borð við sjávarútveginn og ferðaþjónustuna sem eru að töluverðu leyti ekki á markaði. Það eru öflug félög úr þessum geirum á markaði, en í rauninni bara eitt í hvorum geira. Við höfum átt mý­ mörg samtöl við ýmis nýsköpunarog vaxtafyrirtæki í þessum geirum á undanförnum misserum til að kynna fyrir þeim þennan valkost. Þarna held ég að sé mikið sóknarfæri, bæði fyrir félögin og fyrir fjárfesta,“ segir Páll.

Páll segir að það séu einkum tækifæri fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki á markaði. „Ef við berum saman íslenska markaðinn við þann norræna, þá er stærðardreifing fyrirtækja á aðalmarkaði svipuð. En svo vantar alveg inn í flóruna hjá okkur smá og meðalstór fyrirtæki sem eru smærri en þau fyrirtæki sem eru á aðalmarkaði í dag. Þetta er mjög algengt á mörkuðum erlendis en óplægður akur hér.“

Einnig hafa nýlega verið gerðar breytingar á skilyrðum um hlutafjárútboð fyrirtækja sem einfalda lítil útboð. „Við bindum vonir við það að þessar breytingar muni leiða til útboða og skráningu smærri fyrirtækja. Við höfum átt fundi með nokkrum smáum fyrirtækjum undanfarið sem eru, í ljósi breyttra aðstæðna, að velta þessum möguleika fyrir sér meira en áður,“ segir Páll.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .