Þrjátíu prósent Blackberry notenda í stórum bandarískum fyrirtækjum ætla að skipta um símtegund á næsta ári. Er það einkum hrun á þjónustu Blackberry í mánuðinum sem gerði það að verkum að Blackberry notendur gátu ekki sent eða tekið við tölvupósti í símum sínum svo dögum skipti.

© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Hrunið gat í raun ekki komið á verri tíma fyrir Blackberry, því það var um sama leyti og Apple kynnti nýjustu útgáfuna af iPhone símanum. Þrátt fyrir að allur almenningur virðist hrifnari af Apple símum en Blackberry þá er Blackberry allsráðandi meðal starfsmanna stórra fyrirtækja, þ.e. fyrirtækja með yfir 10.000 starfsmenn.

Könnunin, sem unnin var af Enterprise Management Associates, sýnir fram á að um 52% starfsmanna slíkra fyrirtækja nota Blackberry, 20% nota Android snjallsíma og 17% nota iPhone frá Apple. Hlutur Blackberry minnkar hins vegar eftir því sem smærri fyrirtæki eru skoðuð. Má sem dæmi nefna að símtegundin mælist vart meðal starfsmanna fyrirtækja með undir 500 starfsmenn.