Á innan við viku hafa yfir 10% netbankanotenda Skandiabanken hafið notkun á heimilisfjármálahugbúnaði Meniga, sem er aðgengileg 300 þúsund viðskiptavinum bankans. Samið var við bankann í síðustu viku, eins og fram kom á vb.is, og er lausn Meniga hluti af netbanka Skandiabanken.

Samningurinn við Skandiabanken í Noregi er fyrsti samningur Meniga við erlendan banka en fyrirtækið vinnur einnig að innleiðingarverkefnum með bönkum í Þýskalandi, Svíþjóð og Finnlandi.

Íslensku bankarnir nota lausnina

Georg Lúðvíksson, framkvæmdastjóri Meniga, heldur ávarp við afhendingu Viðskiptaverðlauna og Frumkvöðlaverðlauna Viðskiptablaðsins á Grillinu þann 29.12.11. (Mynd: Sigurjón Ragnar)
Georg Lúðvíksson, framkvæmdastjóri Meniga, heldur ávarp við afhendingu Viðskiptaverðlauna og Frumkvöðlaverðlauna Viðskiptablaðsins á Grillinu þann 29.12.11. (Mynd: Sigurjón Ragnar)
Íslendingar þekkja heimilisfjármálalausn Meniga en rúmlega 17% íslenskra heimila notar vefinn Meniga.is. Viðskiptavinir Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans geta tengst vefnum gegnum netbankann sinn og í þar síðustu viku varð Meniga lausnin einnig hluti af netbanka Íslandsbanka.

Georg Lúðvíksson, framkvæmdastjóri Meniga, sagði við vb.is að samningurinn við Skandiabanken væri stærsti áfanginn í sögu Meniga til þessa. Hann muni skila fyrirtækinu umtalsverðum tekjum. Nú sé lausnin aðgengileg viðskiptavinum banka utan Íslands.