Sérstakur saksóknari Ólafur Þ. Hauksson áætlar að á bilinu þrjátíu til fjörutíu manns hafi verið kallaðir til skýrslutöku í tengslum við rannsókn á Landsbankanum. Ólafur segir að það hafi verið fyrirséð í upphafi að talað yrði við nokkuð stóran hóp manna og að framvinda taki stefnu eftir þeim upplýsingum sem berast.

Húsleitir voru gerðar á þremur stöðum síðastliðinn fimmtudag í tengslum við rannsókn á meintu misferli Landsbankans fyrir hrun. Sjö voru yfirheyrðir í kjölfarið, þar á meðal Sigurjón Árnason, fyrrum bankastjóri, og Ívar Guðjónsson, fyrrum forstöðumaður eigin viðskipta, sem voru úrskurðaðir í ellefu og sjö daga gæsluvarðhald. Þá var Halldór J. Kristjánsson, sem var bankastjóri við hlið Sigurjóns fyrir fall bankans, úrskurðaður í farbann í gær.