Nú á fjórða tímanum í dag höfðu þrjátíu þúsund manns skrifað undir áskorun á vefsíðunni lending.is. Þar er hvatt til þess að flugvöllurinn í Vatnsmýri verði þar áfram.

„Flugvöllurinn í Vatnsmýri er hjartað sem slær allan sólahringinn árið um kring. Þangað koma og fara slasaðir á bráðamóttöku, sjúkir á sjúkrahús, starfsmenn á fundi, vörur til fyrirtækja, embættismenn í stjórnsýslu, ferðamenn í ferðaþjónustu, nemendur til náms, auk þess sem völlurinn er hjartað í flugsögu Íslendinga aftur til ársins 1919,“ segir á síðunni.

Friðrik Pálsson, eigandi Hótel Rangár, er einn aðstandandi undirskriftasöfnunarinnar. Hann segist vera mjög ánægður með viðtökurnar. „Ánægðastir erum við með hvað viðtökurnar hafa verið góðar. Öll kommentin sem við höfum fengð hafa verið þakklæti frá fólki fyrir það að geta sagt skoðun sína á þessu máli,“ segir Friðrik í samtali við Viðskiptablaðið.

Aðstandendur söfnunarinnar þurfa að skila inn athugasemdum við skipulag í Vatnsmýrinni fyrir 20. september. Friðrik segir að vefsíðan muni standa uppi þangað til.