Forsvarsmaður félags hér á landi gafst ekki upp þótt á móti blæsi og sendi ítrekuð erindi á Ríkisskattstjóra, Samgöngustofu og sýslumann til að fá gjald á bifreið hans fellt niður. Sú þrjóska bar árangur að hluta til en yfirskattanefnd féllst á niðurfellingu gjaldsins frá og með áramótunum 2014/15. Niðurfelling vegna fyrri ára fékkst þó ekki.

Umrætt félag er almennt félag sem hefur að tilgangi ýmsa íþróttastarfsemi. Árið 2010 festi það kaup á tíu ára gamalli bifreið en seljandi hennar var einn forsvarsmanna íþróttafélagsins. Umrædd bifreið var skráð úr umferð í mars 2011 en tekin í umferð á ný í júní sama ár. Númeraplötur voru formlega lagðar inn í maí 2016 en bifreiðin var síðast skoðuð í júlí 2011.

Í byrjun árs 2013 kom eigandi bifreiðarinnar á lögreglustöð og tilkynnti að númeraplötum hennar hefði verið stolið. Sá stuldur átti að hafa átt sér stað í byrjun árs 2012 og verið tilkynnt stjórnvöldum. Í júní 2014 óskaði félagið eftir því að álagning bifreiðagjalda vegna hennar yrðu leiðrétt en því hafnaði Ríkisskattstjóri (RSK).

Til að unnt sé að fá gjaldið niðurfellt þarf að skila plötunum eða færa sönnur á að bifreiðin hafi verið ónýt og ekki í notkun. Að mati RSK þótti sannað að bifreiðin hefði ekki verið notuð en hún væri ekki ónýt og þá hefði númeraplötunum ekki verið skilað. Í ákvörðun RSK var þess ekki getið að unnt væri að skjóta niðurstöðunni til æðra stjórnvalds.

Pantaði nýja plötu til að skila henni inn

Í mars 2015 reyndi félagið á ný að fá bifreiðagjöld felld niður. Bent var á að því væri ómögulegt að skila númeraplötunum enda hafði þeim verið stolið árið 2012. Ekki sé hægt að skila einhverju sem þú hefur ekki undir höndum. Því hefði eigandinn pantað nýjar númeraplötu til að geta skilað henni. Samkvæmt leiðbeiningum sem hann hafði fengið dugði að skila inn einni númeraplötu. Það dugði hins vegar ekki til að fá gjaldið niðurfellt.

Þriðja sinn var reynt, nú í maí 2015. Því erindi fylgdu gögn frá Samgöngustofu þar sem það var staðfest að ný plata hefði verið pöntuð og hún væri geymd hjá stjórnvaldinu. Ekki dugði það til hjá RSK sem sagði að þótt ný plata væri tilbúin þá væri ökutækið ennþá skráð í umferð.

Allt er þegar þrennt er og fullreynt í fjórða sagði skáldið. Fjórða umsóknin var send RSK í apríl 2016 og þá tekið fram að bifreiðin hefði ekki verið í notkun frá 2010. Því til staðfestingar lágu fyrir pappírar frá tryggingafélögum landsins þess efnis að lögboðin ábyrgðartrygging hefði ekki verið í gildi frá árinu 2010. RSK hafnaði erindinu með þeim rökum að ekkert nýtt hefði komið fram í málinu sem réttlætti breytingu frá fyrri úrskurðum.

Misskilningur hjá starfsfólki Samgöngustofu

Fimmta umsóknin fór af stað í september 2016 en henni fylgdi yfirlýsing frá Samgöngustofu svohljóðandi: „Vegna misskilnings starfsmanns var rukkað 1000 kr. fyrir innlögn á X. Engin númeraplata X var lögð inn af því þau voru fyrir hendi. Einungis var pöntuð plata X sem er hjá Samgöngustofu.“

Yfirlýsing Samgöngustofu varð til þess að RSK bað um að fá frekari útskýringar á efni hennar. Í svari Samgöngustofu kom fram að fyrirsvarsmaður félagsins hefði ítrekað komið til stofnunarinnar með beiðnir um niðurfellingu á bifreiðagjaldi og vanrækslugjaldi sem lagt hafði verið á bifreiðina.

„Þær tvær yfirlýsingar á bréfsefni Samgöngustofu sem eru tilefni fyrirspurnar ríkisskattstjóra voru gerðar í því skyni að sýna liðlegheit þar sem [fyrirsvarsmaður félagsins] kvaðst aldrei hafa óskað eftir því að kaupa nýja númeraplötu. Þau atriði sem varða það tímabil sem númeraplöturnar voru í geymslu, eru á misskilningi byggð. Er þess óskað að litið verði framhjá umræddum yfirlýsingum Samgöngustofu dags. 20. september 2016,“ sagði enn fremur í svarbréfi Samgöngustofu.

Þessu næst beindi RSK fyrirspurn til kæranda og óskaði eftir staðfestingu á því að skráningarmerki bifreiðarinnar hefðu ekki verið tekin úr í júní 2011. Því var ekki svarað og hafnaði RSK erindinu. Var á það bent að bifreiðin hefði verið færð í skoðun sumarið 2011 og yrði því að gera ráð fyrir því að þá hefði hún verið búin skráningarmerkjum.

Einhverjir hefðu látið kyrrt liggja á þessum tímapunkti en ekki söguhetjan í máli þessu því sumarið 2018 sendi félagið bréf til RSK. Efni þess var að krefja stofnunina um bætur vegna afnotamissis bifreiðarinnar, litlar 67,5 milljónir króna. Því erindi var vísað frá.

Sex erindi send á fimm árum

Tæpum fimm árum eftir að fyrsta erindið var sent RSK fór það sjötta og síðasta af stað frá félaginu. Því fylgdu sömu gögn og áður en til viðbótar mátti þar finna tilkynningu frá innheimtumanni ríkissjóðs vegna ógreiddra bifreiðagjalda og staðfestingu frá sýslumanninum á Vestfjörðum um að vanrækslugjald vegna bifreiðarinnar hefði verið fellt niður. Í umræddu bréfi sýslumanns mátti meðal annars finna svohljóðandi texta: „Er [kærandi] ekki með „unnið“ mál með þessar upplýsingar undir höndum?“

Í úrskurði RSK frá maí í fyrra kom fram að breyttri álagningu vegna áranna 2011-13 væri synjað þar sem sex tekjuár væru liðin frá álagningu þeirra. Væri því ekki unnt að endurupptaka þann hluta málsins. Hvað árin 2014-17 varðaði þá væru skilyrði fyrir niðurfellingu gjaldanna ekki uppfyllt. Ekki frekar en hin skiptin fimm.

Eftir allar þessar tilraunir kærði maðurinn loks niðurstöðuna til yfirskattanefndar (YSKN). Kæran var studd sömu gögnum og beiðnirnar til RSK. Í umsögn RSK um kæruna var frávísunar frá YSKN krafist þar sem engin breyting hefði orðið á högum kæranda og því hefði ekki stofnast kærufrestur vegna málsins.

Fallist á niðurfellingu síðustu árin

Í niðurstöðu YSKN kemur fram að RSK hafi ekki í nokkru tilfelli leiðbeint félaginu um að unnt væri að kæra málið til nefndarinnar. Þá var einnig bent á að fyrsta erindi málsins hefði borist í júlí 2014 og því væri ekki hægt að bera sex ára reglunni fyrir sig við synjun sjötta erindisins. Málið þótti því tækt til efnismeðferðar.

Að mati nefndarinnar var augljóst að bifreiðin hefði verið á merkjum um sumarið 2011 enda var hún þá þrívegis færð í skoðun. Samkvæmt forsvarsmanni félagsins hefði merkjunum verið stolið í byrjun árs 2012 en það ekki tilkynnt til lögreglu fyrr en ári síðar. Ný númeraplata hafi verið pöntuð í lok árs 2014.

„Verður að skilja málatilbúnað kæranda í heild þannig að umrædd númeraplata hafi verið pöntuð í því skyni að leggja hana inn hjá skráningaraðila, enda hafi stuldur skráningarmerkjanna á sínum tíma orðið til þess að kærandi hafi ekki búið að skráningarmerkjum til þess að leggja inn. Ganga verður út frá því að kærandi hafi fengið leiðbeiningar um þessa tilhögun hjá Samgöngustofu (áður Umferðarstofu), en samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins voru fyrirsvarsmenn kæranda í samskiptum við stofnunina um úrlausn málsins. Samkvæmt framansögðu þykir mega byggja á því að skráningarmerki bifreiðarinnar X hafi verið afhent skráningaraðila til varðveislu í upphafi árs 2015,“ segir í niðurstöðu nefndarinnar.

Að mati nefndarinnar voru plöturnar því lagðar inn um áramótin 2014/15 og því fallist á að fella gjöldin niður við það tímamark. Skilyrði til niðurfellingu þeirra fyrri gjaldtímabil væru aftur á móti ekki uppfyllt. Beiðni um niðurfellingu á úrvinnslugjaldi var hafnað þar sem engin lagaheimild er til að fella það niður.

Nú er bara að bíða og sjá hvort eigandinn láti þar við sitja eða fari í hart fyrir dómstólum.