Skúli Gunnar Sigfússon, oft kallaður Skúli í Subway, var ekki nema 27 ára þegar hann opnaði fyrsta Subwaystaðinn þann 11. september árið 1994 í Faxafeni. Skúli hafði þremur árum áður útskrifast úr háskóla í Phoenix í Arizona ríki Bandaríkjanna þar sem hann lærði fjármálafræði. Staðirnir eru nú orðnir 24 talsins.

Í dag er Skúli í viðamiklum fjárfestingum, ekki bara í veitingageiranum heldur líka í fasteignum, ferðaþjónustu og á næstu mánuðum mun hann ráðast í mörg þúsund tonna laxeldi í félagi við aðra. Allt byrjaði þetta hins vegar með opnun fyrsta Subway-staðarins.

„Eftir útskrift vann ég í tvö ár hjá Landsbréfum sem fyrirtækjaráðgjafi. Ég sá um alls konar hlutabréfaog skuldabréfaútboð og þess háttar á þeim tíma. Svo átti hún ekki alveg við mig skrifstofuvinnan og ég gekk alltaf með þá hugmynd að fara í eigin rekstur og hafði alltaf gengið með Subway í maganum frá því að ég var í skóla í Bandaríkjunum. Ég var fastur viðskiptavinur þar,“ segir Skúli.

Fékk lán hjá mömmu til að komast af stað

Hvernig komstu þér af stað? Væntanlega hefur þú þurft að leggja eitthvað út fyrir þessu til að byrja með?

„Ég bjó vel að reynslu og tengiliðum frá Landsbréfum á þeim tíma. Ég hafði séð um skuldabréfaútboð og annað fyrir fjármögnunarfyrirtækin, og Landsbréf var náttúrulega tengt Landsbankanum. Menn bara höfðu trú á því sem ég var að gera og ég fékk þó nokkra peninga lánaða. Móðir mín hjálpaði mér með einhvern smá pening, svona eins og tíðkast kannski þegar maður er undir þrítugu og er að byrja í bissness,“ segir Skúli og brosir.

Spurður hvort þennan háttinn sé hægt að hafa á í dag segir hann: „Ég held því miður að það sé erfiðara. Það er erfiðara fyrir ungt fólk að fara inn í fjármálastofnanir og fá lán. Ég gat bara ekki hugsað mér að sækja mér eigið fé á þeim tíma. Ég hafði bara það mikla trú á þessu að ég vildi eiga þetta einn. En í dag held ég að þú þurfir að selja einhverjum hugmynd og þarft að fá meira eigið fé inn í verkefnið heldur en þá.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .