Þegar Steven Goldstone var forstjóri RJR Nabisco sagði hann að heimsóknir Carls Icahn væru eins konar árleg helgiathöfn. Ár eftir ár mætti fjárfestirinn og krafðist þess að RJR skipti upp fyrirtækinu, annars vegar í sælgætishluta og hins vegar tóbakshluta. Ár eftir ár barðist hann við að fá aðra hluthafa til að samþykkja tillögur hans um stjórnarmenn og ár eftir ár lét hann það ekki á sig fá að hann fékk sínu ekki framgengt.

Þessi stórmerkilega þrautseigja Icahns kom aftur í ljós í síðustu viku. Að hluta til vegna þess að fjögurra ára þrýstingsherferð hans á lyfjafyrirtækið Forest Laboratories bar loks ávöxt þegar fyrirtækið var keypt af Actavis fyrir 25 milljarða Bandaríkjadala.

En salan, sem gekk í gegn tveimur dögum eftir að Icahn fagnaði 78 ára afmæli sínu, veitti honum enn eitt tækifærið til að færa rök fyrir því að aðgerðasinnaðir fjárfestar séu besta vörn hluthafa gegn víggirtum hagsmunum stjórnenda fyrirtækja, en þeir séu gjarnan sjálfselskir og ábyrgðarlausir. Icahn hefur haldið þessu fram allt frá níunda áratugnum, þegar hann var einn alræmdasti „hrægammurinn“ í bandarísku viðskiptalífi. Var hann m.a.s. fyrirmyndin að persónu Gordons Gekko í kvikmynd Olivers Stone, en einkunnarorð hans voru „græðgi er góð“.

Það sem breyst hefur á þessum tíma er að venjulegir fjárfestar eru nú móttækilegri fyrir rökum róttækari manna eins og Icahn. „Hluthafar ættu að vera stóránægðir þegar hann mætir,“ segir T Boone Pickeens, annar gamall „hrægammur“ og vinur Icahn. „Hann er álíka mjúkur og baðker með hraunyfirborði, hann heldur aldrei aftur af sér, en greiningar hans eru réttar. Veiðimanninn ber að dæma eftir fjölda skinna og Carl á mjög mörg skinn.“ Icahn hafði tvisvar reynt að koma sínum mönnum að í stjórn Forest eftir að hann hóf að safna saman 11,4% hlut í fyrirtækinu og eftir að hann lýsti því yfir að hann hefði fundið enn eitt frábært fyrirtæki sem stjórnendur hefðu farið illa með.

Viðskiptablaðið hefur samið við breska blaðið Financial Times um birtingu efnis frá síðarnefnda blaðinu. Greinin um Icahn er sú fyrsta sem birtist á síðum Viðskiptablaðsins úr Financial Times. Áskrifendur geta nálgast Viðskiptablaðið undir liðnum tölublöð hér .