Útibúi snjallbílaleigunnar car2go í Chicago-borg, Illinois-ríki Bandaríkjanna, var lokað um stundarsakir eftir að rúmlega hundrað bílum leigunnar var stolið.

Hægt er að bóka og sækja bíl í gegnum smáforrit í síma og hermdu fyrstu fregnir að brotist hefði verið inn í forritið. Samkvæmt yfirlýsingu frá car2go reyndist það ekki raunin.

„Við vinnum nú með lögregluyfirvöldum að endurheimta hina stolnu bíla auk þess að unnið er að því að tryggja að þetta endurtaki sig ekki. Engum trúnaðar- eða persónuupplýsingum um notendur okkar hefur verið stolið,“ segir í yfirlýsingu car2go.

Þjófarnir nýttu sér galla í forritinu til að stela bílunum en um fimmtíu bílanna, af þeim rúmlega hundrað sem týndir eru, voru af tegundinni Mercedez Benz. Búið er að endurheimta fjölda ökutækja.

Car2go bílaleigan er dótturfyrirtæki Daimler og henni ýtt úr vör í Chicago í fyrra. Þaðan hefur fyrirtækið vaxið yfir öll Bandaríkin. Hægt er að leigja umhverfisvænan bíl með snjalltæki og er greitt fyrir hverja mínútu.