Neytendastofa hefur lagt stjórnvaldssektir á þrjú apótek í Reykjanesbæ vegna verðmerkinga. Um er að ræða Apótekarann í Keflavík, Reykjanesapótek og Apótek Suðurnesja, en þau voru hvert um sig sektuð um 50.000 krónur. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Neytendastofu.

Skoðunin tók til fimm apóteka og voru í fyrstu heimsókn gerðar athugasemdir við þau öll. Sérstaklega var horft til þess hvort vörur væru verðmerktar, hvort verðmerking væri rétt og hvort verðmerkingar fyrir aftan afgreiðsluborð væru nægilega sýnilegar neytendum.

„Þeim fyrirmælum var beint til allra apótekanna að bæta verðmerkingar. Skoðuninni var fylgt eftir með nýrri skoðun og kom í ljós að ekki hafði verið nægilega bætt úr verðmerkingum í þremur af fimm apótekum,“ segir í tilkynningu Neytendastofu.