Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland hækkaði 0,07% í viðskiptum dagsins. Velta hlutabréfa á aðalmarkaði nam 1,4 milljörðum króna, og endaði vísitalan í 1.699,04 stigum.

Aðalvísitala skuldabréfa lækkaði um 0,47% og endaði í 1.231,04 stigum, en skuldabréfaveltan nam 14 milljörðum króna.

Marel, Eimskip og Icelandair einu sem hækkuðu

Þau þrjú félög sem sáu gengi hlutabréfa sinna hækka á markaði dagsins voru Marel, sem hækkaði um 1,23%, Eimskipafélag Íslands sem hækkaði um 1,12% og Icelandair sem hækkaði um 0,43%.

Viðskiptin með bréf Marel námu 151 milljón króna og enduðu bréf félagsins á að kosta 246,50 krónur hvert bréf. Verslað var með bréf Icelandair fyrir 117 milljónir króna, og er hvert bréf þess nú verðlagt á 23,40 krónur.

Mest viðskipti voru með bréf Eimskipa, eða 273 milljónir króna, og er verðgildi hvers bréfs í félaginu nú 317,00 krónur.

Össur, Hagar og Eik lækkuðu mest

Gengi bréfa Össur lækkaði mest, eða um 3,75% í 77 milljón króna viðskiptum. Fæst hvert bréf félagsins nú á 385,00 krónur.

Hagar lækkuðu um 1,60% í 116 milljón króna viðskiptum og er hvert bréf félagsins nú veðrlagt á 52,35 krónur við lokun markaða. Bréf í Eik lækkuðu um 1,45% í 94 milljón króna viðskiptum og fæst hvert bréf félagsins nú á 10,20 krónur.

Gengi bréfa VÍS lækkaði um 1,38% í 53 milljón króna viðskiptum og fæst nú hvert bréf félagsins á 8,93 krónur.