Reykjavíkurborg er stærsti lóðahafinn að lóðum sem koma til álita fyrir íbúðauppbyggingu á næstu árum, samkvæmt samantekt Viðskiptablaðsins, sem tók saman umfangsmestu lóðahafanna út frá gögnum frá borginni. Samkvæmt gögnunum eru lóðahafar á uppbyggingarsvæðum um 35 talsins.

Meðal annarra umfangsmikilla lóðahafa er Hömlur, félag í eigu Landsbankans, en félagið á lóðir undir 200 íbúðir á Köllunarkletti í Lauganesi. Þá á félagið meirihluta eða um 60% lóða í Vogabyggð, þar sem áætlað er að 1.100 íbúðir rísi á næstu árum. Þá er félagið Valsmenn lóðahafi á Hlíðarenda þar sem skipulag er í vinnslu í kerfinu en samkvæmt því er gert ráð fyrir 600 íbúðum.

Verktakafyrirtækið Þ.G. verktakar er einnig umfangsmikið og á lóðir þar sem ráðgert er að 493 íbúðir geti risið. Stærsti hlutinn er uppbygging 254 íbúða í næsta áfanga Bryggjuhverfisins við Grafarvog. Þá eru 139 íbúðir í byggingu á Hampiðjureitnum milli Stakkholts og Þverholts og 100 íbúðir gætu risið á Barónsreit svokölluðum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .