Ekkert beint flug hefur verið frá Íslandi til Dallas í Bandaríkjunum en næsta sumar stefnir í samkeppni íslensku flugfélaganna við stærsta flugfélag heims á flugleiðinni. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær hefur American Airlines ákveðið að hefja beint flug milli Fort Worth flugvallar við Dallas í Texas til Keflavíkur frá og með 7. júní næstkomandi.

Í byrjun september sagði blaðið jafnframt frá því að Wow air hyggðist hefja flug til borgarinnar næsta sumar, og síðan bættist Icelandair við um miðjan mánuðinn. Því má vera ljóst að töluverð samkeppni verður um flug milli Íslands og Dallas næsta sumar, en hingað til hefur ekkert beint flug verið í boði milli áfangastaðanna.

Viðskiptablaðið greindi einnig frá því fyrr í dag að Wow air væri að skoða flug bæði til Indlands sem og landa suðaustur Asíu, þá líklegast Kína, Japans og Suður Kóreu. Horfir hann þar til reynslu Finnair sem tekist hefur að byggja upp flugvöllinn í Helsinki sem kjörinn stað til millilendinga fyrir farþega á milli Evrópu og Asíu.

Túristi greinir frá því að farþegar American Airlines muni geta haldið áfram í tengiflugi til Evrópu meðal annars í gegnum Finnair, en félagið á í samstarfi við félagið sem og við British Airways og Iberia í gegnum samvinnufélagið One World.